Bugatti bílasýning

http://www.fib.is/myndir/Bugatti1938.jpg
Bugatti frá 1938.

Nú stendur yfir sérstök sýning á Bugatti bílum í Kassel í Þýskalandi. Sýningin hófst þann 16. Þ.m. og lýkur 11. júní nk. Sýningin er haldin í tilefni af 100 ára afmæli Bugatti.

Bugatti var stofnað árið 1909 í Mols|eim í Frakklandi af Ítalanum Ettore Bugatti í þeim tilgangi að framleiða hágæða bíla. Framleiðslan var á hápunkti á millistríðsárunum fram að heimskreppunni sem hófst haustið 1929 en náði sér aftur nokkuð á strik uns heimsstyrjöldin síðar brast á 1939. Fyrirtækið náði svo ekki flugi eftir stríð og sendi frá sér síðustu bílana á sjötta áratuginum. Vörumerkið Bugatti er nú í eigu Volkswagen og á þess vegum eru byggðir rándýrir bílar í takmörkuðum upplögum.

Bílarnir á sýningunni í Kassel eru frá öllum tímum í sögu Bugatti. Flestir þeirra eru úr hinu gríðarlega stóra Schlumpf bílasafni í Mulhouse í Frakklandi, vinabæ Kasselborgar. Safnið á heilu seríurnar af Bugatti bílum frá öllum tímum og verðmæti þeirra er talið í milljörðum evra. En margir sýningargripanna í Kassel eru þó í einkaeigu, þar á meðal T35 bíllinn sem  sigraði í frægum fjallakappakstri kenndum við Herkúles, árið 1927. Ökumaður bílsins þá var frægur kappaksturskappi þess tíma og hét Karl Kappler.