Búnaður sem tilkynnir holur í veginn

Google hefur fengið einkaleyfi á tölvubúnaði fyrir GPS leiðsögutæki. Þegar bíl er ekið ofan í vegholu og hann skelfur og nötrar, sendir kerfið samstundis tölvupóst og/eða SMS til veghaldara hvar nákvæmlega holan er, sem þá fer vonandi á staðinn hið bráðasta og lagfærir veginn. Þetta gæti aldeilis komið sér vel hér á landi þar sem viðhaldi vega og gatna hefur verið mjög ábóta vant og háskalegar holur úti um allar trissur.

 Kerfið frá Google er í raun meira en forrit. Í því er líka hreyfiskynjari sem nemur höggið á bílinn (eða hjólið) þegar hann fer í holuna og sendir síðan upplýsingarnar um holuna og staðsetningu hennar annað hvort beint um nettengingu bílsins sjálfs eða um farsíma.

Með þessum búnaði gæti Google byggt upp gríðarstóran gagnabanka um ástand vega hvarvetna í veröldinni. Hversu fljótt hann byggðist upp myndi vitanlega ráðast af fjölda farartækja með þennan nýja búnað, en vel má hugsa sér að ferðalangar geti í fyllingu tímans valið sér vegi til að fara um, eftir ástandi þeirra eftir að hafa rýnt í vegakort Google Maps.

Greint er frá þessu á Auto-Blog en þess getið að kerfið sé hvergi nærri fullmótað og –þróað.og hreint ekki víst að það verði nokkurntíman að veruleika. Google sé einungis búið að tryggja sér einkaleyfi á hugmyndinni. Til að kerfi sem þetta dugi verður kerið að geta skilgreint nokkuð nákvæmlega hvernig holan er og hversu varasöm til að teljast þess verð að tilkynna hana. Sömuleiðis verður GSM símamerkið að vera traust og GPS staðsetningarkerfið mjög nákvæmt upp á það að staðsetja holuna nokkurnveginn rétt.

En sé allt framantalið í besta lagi þá er spurningin eftir hvort það sé yfirleitt til einhvers að tilkynna holurnar. Til veghaldara, mun hann bregðast við?