Byltingarkenndur rafbíll frá árinu 1900

http://www.fib.is/myndir/Porsche_107year.jpg
Porsche rafmagnsbíll frá árinu 1900.

Það er fátt nýtt undir sólinni og það á vissulega við um rafmagnsbíla. Miðað við það hversu langt er síðan fyrstu rafbílarnir komu fram á sjónarsviðið þá vekur það furðu hversu þróun þeirra hefur eiginlega verið lítil.

Á heimssýningunni í París árið 1900 – fyrir 107 árum – sýndi 24 ára gamall verkfræðingur byltingarkenndan rafmagnsbíl. Svo byltingarkenndur var bíllinn raunar að það er ekki fyrr en undir þetta að rafbílar hafa komist fram úr bílnum frá 1900 hvað varðar drægi. Hönnuður bílsins, verkfræðingurinn ungi varð heimsþekktur frá þeirri stundu sem sýningin í París var opnuð þarna um árið. Hann hét Ferdinant Porsche.

Rafbíllinn frá 1900 hafði tvo jafnstraumsmótora í framhjólanöfunum. Hvor um sig var 2,5 hö. og virkuðu jafnframt sem bremsur. Þegar hemlað var snerist virkni rafmótoranna við og þeir framleiddu straum sem skilaði sér til baka inn á geymana sem voru sömu gerðar og hefðbundnir geymar eru enn í dag – blý/sýrugeymar. Hin uppsafnaða hreyfiorka bílsins var þannig endurnýtt nákvæmlega á sama hátt og í t.d. Toyota Prius. Drægi bílsins var 50 km á rafhleðslunni sem er lltlu lakara en hjá flestum rafbílum nútímans. Rafmótorarnir voru það góðir að nýtingarhlutfall raforkunnar var hvorki meira né minna en 83%. Það er ekki fyrr en á síðustu árum að betri rafmótorar en þetta hafa komið fram.

Auðvitað var hvorki afl né hámarkshraði í neinum nútímahæðum en viðað við bíla almennt þá var þessi bíll bara nokkuð sprækur. Hann komst á 50 km hraða en eðlilegur vegahraði var rétt undir 40. Og þar sem mótorarnir voru í framhjólanöfunum voru auðvitað engar keðjur eða drifsköft til að færa aflið frá mótor til hjóla. Enginn gírkassi var í honum og af þeirri ástæðu var „lágmarkshraði“ bílsins 17 km á klst.

Í bílnum var einn rafgeymir með 44 sellum. Spennan var 80 volt og orkan nam 300 amperstundum. Geymirinn var 410 kíló, hvort framhjól ásamt rafmótornum var 115 kíló og eigin þyngd bílsins var 1.205 kíló.

Alls voru byggð 300 eintök af þessum merka rafbíl og voru kaupendurnir aðallega stórforstjórar og auðmenn, enda var bílinn nokkru dýrari en aðrir bílar þess tíma sem voru búnir brunahreyflum.

Nokkur eintök þesara bíla eru enn til og verður eitt þeirra sýnt á bílasýningunni í Los Angeles sem opnuð verður á föstudag, við hlið nýrrar tvíorkugerðar Porsche Cayenne jeppans.