Cadillac CTS – bíll ársins í USA

http://www.fib.is/myndir/Cadillac-CTS-2008.jpg
Cadillac CTS er bíll ársins 2008 í USA.

Bíll ársins í Bandaríkjunum 2008 er –ekki Fiat 500, heldur mun stærri bíll – Cadillac CTS. Bíll ársins í þessu mikla bílalandi er valinn af bílatímaritinu Motor Trend og hefur svo verið frá árinu 1948. Þetta er í fyrsta sinn í 10 ár sem bíll frá GM hlýtur titilinn. 18 bílar voru tilnefndir og átta komust í úrslit og var mjótt á munum milli þeirra efstu.

Bíll ársins í Bandaríkjunum var fyrst valinn árið 1948 og sá fyrsti sem hlaut titilinn og var valinn bíll eftirfarandi árs, ársins 1949 var einmitt Cadillac. Þá var það þó bílategundin sem hlaut titilinn í stað einstakrar gerðar bíls eins og nú tíðkast. Innfluttir bílar komu í þá daga alls ekki til greina sem bílar ársins í Bandaríkjunum. Það gerðist ekki fyrr en árið 1999, enda var þá svo komið fyrir bandaríska bílaiðnaðinum að mati ritstjórnarinnar á Motor Trend að ekki væri lengur hægt að greina afgerandi í milli hreinræktaðra bandarískra bíla og aðkominna bíla, enda margir japanskir og evrópskir bílaframleiðendur búnir að reisa bílaverksmiðjur í Bandaríkjunum og sumir bandarískir framleiðendur farnir að framleiða „bandaríska“ bíla í öðrum löndum. Undanfarin ár hafa nokkrir japanskir bílar hlotið titilinn bíll ársins í USA, t.d. síðasta ár var það Toyota Camry.

Meðal þeirra kosta sem Motor Trend tíundar við Cadillac CTS eru að hann er ekki lengur bíll sem höfðar eingöngu til eldri karlmanna, heldur fangar líka huga yngri bílakaupenda. Hönnunin sé evrópsk þótt enginn vafi leiki á að um sé að ræða Cadillac. Hann sé góður í akstri og stöðugur en jafnframt mjög þægilegur, innrétting vönduð, búnaður sé ríkulegur og verðið loks langtum lægra en á sambærilegum evrópskum gæðabílum. Í dómsniðurstöðu segir að CTS sé besti Cadillakkinn í 50 ár.

Sala á þessum bíl er hafin í Evrópu og hefur ekki gengið vel. Hugsanlegt er að hún lagist þegar CTS verður fáanlegur með nýrri og fullkominni V6 dísilvél innan skamms. Ritstjórn Motor Trend segir að valið hafi verið það erfiðasta nokkru sinni því að úr miklum gæðabílum hafi verið að velja. Þeir 18 bílar sem upphaflega voru tilnefndir eru Audi S5/A5, Audi TT, Chevrolet Malibu, Chrysler Town & Country, Dodge Grand Caravan, Dodge Avenger, Ford Focus (bandaríska útfærslan), Ford Taurus, Honda Accord, Mercedes C-klass, Mini Cooper, Mitsubishi Lancer, Scion xB, Scion xD, Subaru Impreza, Volvo C30 och Volvo XC70.

Til að koma til greina í valinu urðu bílarnir að vera af annaðhvort nýrri gerð eða eldri sem hefur verið breytt verulega og hafa verið á almennum markaði frá upphafi yfirstandandi árs og í minnst 12 mánuði fram að 1. janúar.