Cadillac reynir aftur
Ljóst er orðið að General Motors misreiknaði sig illilega á „litla“ Cadillac BLS bílnum sem í grunninn var Saab 9-5 og meira að segja líka skrúfaður saman hjá Saab í Svíþjóð. Vonir stóðu til að Evrópumenn myndu verða áfjáðir í þennan stólpagrip en svo reyndist alls ekki. Sárafá eintök seldust og stórtap varð á ævintýrinu.
En nú er Saab ekki lengur í eigu GM og ekki er lengur verið að skrúfa Cadillac merki á Saab bíla í Svíaríki. En hjá GM hafa menn ekki gefið hugmyndina um lítinn Cadillac upp á bátinn, bíl í sama stærðarflokki og BMW 3 línan. Þvert á móti. Nýr forstjóri GM boðar framleiðslu á slíkum bíl og er viss um að hjá BMW skjálfi menn á beinunum af tilhugsuninni einni.
Daniel Akerson GM forstjóri kynnti þessar fyrirætlanir á blaðamannafundi í Lansing í Michigan í nýliðinni viku. Viðstaddir voru ýmis stórmenni í stjórnmálum og verkalýðsfélögum og kvaðst GM-forstjórinn ætla að fjárfesta 190 milljón dollara í verksmiðjunni í Lansing til að bæta framleiðsluna á CTS bílnum sem þar er framleiddur nú og reyndar selst afar vel, en breyta verksmiðjunni um leið þannig að hún geti einnig framleitt nýjan lítinn Cadillac og fleiri nýjar gerðir í stað gerðanna STS og DTS sem hætt verður að framleiða. Nýi litli Cadillakkinn mun fá gerðarheitið ATS og verður að líkindum afturhjóladrifinn.