Car2go hættir rekstri í Kaupmannahöfn

Bílasamnýtingarfyrirtækið Car2go hefur tilkynnt að rekstrinum í Kaupmannahafnarborg verði hætt 15. febrúar nk. Car2go er í eigu Daimler, móðurfélags Mercedes Benz og Smart. Það á og rekur samnýtingarflota Smart Fortwo smábíla í mörgum helstu borgum Evrópu og Bandaríkjanna.

Car2go og önnur samskonar félög starfa þannig að fólk skráir sig inn og geta allir sem skráðir eru fundið sér eftir það lausan bíl í gegn um app eða smáforrit í snjallsímanum, opnað bílinn og notað. Að notkun lokinni er bílnum svo skilað á tiltekin bílastæði hvar sem þau er að finna innan viðkomandi borgar eða notkunarsvæðis og greiðsla fyrir notkunina er gjaldfærð á greiðslukort notandans eftir tímalengd hennar. Allar tryggingar og notkunarskattar eru innifaldir í leiguverðinu.

Starfsemi Car2go hófst í Kaupmannahöfn í september 2014 og var hún sú fyrsta sinnar tegundar í borginni. Í farartækjaflotanum voru 200 hvítir og bláir Smart Fortwo. Framkvæmdastjórinn segir í samtali við fréttavef FDM, systurfélags FÍB, að skráðir notendur eða meðlimir hefðu flestir orðið 8.500 sem ekki væri nóg til að halda starfseminni gangandi með viðunandi þjónustustigi. Til þess hefðu meðlimir þurft að verða talsvert fleiri eða milli 8-10 prósent af íbúatölu borgarinnar. Þetta væri meginástæða þess að ákveðið hefði verið að hætta starfsemi í Kaupmannahöfn.

Fyrsta starfsárið var Car2go eina samnýtingarfélagið af þessu tagi í Kaupmannahöfn eða þar til í september 2015 þegar félagið DriveNow hóf starfsemi. Það er BMW sem stendur að DriveNow og bílar félagsins eru 400 talsins, allir rafknúnir 4ra manna bílar, af gerðinni BMW i3. Talsmaður Car2go, Isabel Eipper, neitar því að koma DriveNow inn á Kaupmannahafnarmarkaðinn sé ástæða brottfarar félagsins. „Við rákum okkur bara á það hversu erfitt það er að ná fótfestu í borg með jafn góða og fjölbreytta samgöngumöguleika og Kaupmannahöfn með sitt þétta net strætisvagna, lestakerfa og mikinn fjölda fólks fer flestra sinna ferða á reiðhjólum. Hún kvaðst ekki telja að ein ástæða þess að of fáir gerðust skráðir meðlimir Car2go hefði verið sú að skilgreint notkunarsvæði bílanna hafi verið of þröngt og að flugstöðin á Kastrup hefði verið utan þess. „Við störfum í 30 öðrum borgum þar sem flugvöllurinn er utan okkar þjónustusvæðis. Vandinn var einfaldlega sá að þeir voru of fáir sem völdu samnýtingarbíl sem fyrsta kost umfram aðra samgöngukosti.“