Carlos Sainz orðinn fyrstur

http://www.fib.is/myndir/Carlos_sainz.jpg
Carlos Sainz.

Eftir tvo fyrstu áfanga Dakarrallsins er Spánverjinn og fyrrverandi heimsmeistari í ralli, Carlos Sainz,  með forystu. Sainz ekur Volkswagen Touareg. Í öðru sæti er S. Afríkumaðurinn Giniel de Villiersdag sem einnig keppir á Volkswagen. Sigurvegarinn úr síðasta Dakar ralli, Stephane Peterhansel sem ekur Mitsubishi Lancer er í þriðja sæti.

Keppni gærdagsins var talsvert erfið og sjálfsagt einkonar upptaktur fyrir það sem koma skal. Sainz sagði við AP fréttastofuna að keppni lokinni í gær, sunnudag, að 235 km löng sérleiðin hefði verið mjög erfið vegna þétts rykmekkjar sem bílar og mótorhjól rótuðu upp. Á stundum hefði hann jafnvel neyðst til að stansa og svo blint hefði verið á köflum að hann hefði meira að segja slysast til að aka á einn mótorhjólakeppandann, en vonandi hefði sá ekki meiðst.

Giniel de Villiers tók í sama strreng og kvaðst hafa villst af leið um tíma og tapað tíma af þeim sökum.  Þá hefði verið mjög erfitt að komast fram úr mótorhjólunum á síðasta áfanga sérleiðarinnar.

Keppni í þriðja áfanga hefst síðdegis að íslenskum tíma. Ekið verður frá Puerto Madryn til  Jacobacci. Vegalengdin er alls 694 km. Sérleið áfangans er 551 km.