Caterham Suzuki-Seven

Nú eru um um 40 ár liðin síðan Caterham tók að sér framleiðslu á Lotus Seven sportbílnum, einum þeim hráasta sem um getur. Enn er þessi blóðhrái sportbíll framleiddur án afláts og meira að segja hægt að kaupa hann á mismunandi byggingarstigum og klára sjálfur að púsla honum saman. Nú er fram komin ný útgáfa af  Caterham Seven, eins og bíllinn heitir nú. Hún er  með þriggja strokka 660 rúmsm Suzuki mótor. Þótt vélin sé smá og hestöflin að sönnu ekkert mjög mörg (80) þá er Caterham Seven mjög léttur þannig að ekki þarf að kvarta undan aflleysi né seinu viðbragði.

Í tímans rás hafa mjög margir spreytt sig á því að byggja Lotus Seven eftirlíkingar  sem áhugamenn hafa getað eignast til þess að púsla saman sjálfir heima í bílskúr. Þessi „kubbasett“ hafa verið aðlöguð fyrir margskonar vélar og drifbúnað sem auðvelt er að nálgast, t.d. á bílapartasölum. Caterham hefur lengst af notað notað vélar og drifbúnað frá Ford í sína bíla en nú er það semsé Suzuki sem leggur til búnaðinn og sýnir Caterham Seven á sínu sýningarsvæði á sjálfri Frankfurt bílasýningunni.

Caterham-Suzuki bíllinn í Frankfurt er að flestu leyti afar gamaldags og hrár sportbíll. Í honum fyrirfinnst enginn hjálparbúnaður eins og ABS hemlar, ESC stöðugleikabúnaður, aflstýri og aflhemlar. Samband ökumanns og bíls er eins einfalt og beint og hugsast má og leikni og akstursfærni þess sem ekur ræður öllu um það hversu aksturinn heppnast. Drifið er á afturhjólunum í gegn um heila afturhásingu og gamaldags skálabremsur eru á afturhjólunum.

En þótt bíllinn sé frumstæður þá er ekki hægt að segja að hann sé ódýr. Sýningarbíllinn í Frankfurt er verðsettur á 25 þúsund evrur eða um fjórar milljónir kr. fyrir utan alla skatta og gjöld. Fjöldaframleiðsla á bílnum fyrir Evrópu- og Japansmarkaði hefst í janúar nk. og afhending til kaupenda í mars.