Checker nær gjaldþrota

http://www.fib.is/myndir/Checker-litil.jpg
Checker Marathon leigubíll.

Bandaríska leigubílasmiðjan Checker er í verulegum peningavanda, nánast gjaldþrota og komin í gjörgæslu banka. Þetta kemur fram í Automotive News. Margir sem kynntust New York borg upp úr miðri síðustu öld muna áreiðanlega eftir gulu Checker leigubílunum sem óku um borgina þúsundum saman. Þetta voru stórir drekar og það var rúmt um farþegana í þeim. Fáeinir Checkerbílar bárust til Íslands og Pétur Thomsen, konunglegur sænskur hirðljósmyndari átti einn slíkan og notaði sem sinn einkabíl.

Það er kannski ofsagt að Checker sé leigubílasmiðja, því að leigubílaframleiðslan lagðist af fyrir 25 árum. Í dag vinna um 250 manns hjá fyrirtækinu við að pressa eða stansa hluti eða einingar í yfirbyggingar bíla annarra bílaframleiðenda, t.d. Chrysler, Ford og GM. Checker er semsé undirframleiðandi í bandaríska bílaiðnaðinum. http://www.fib.is/myndir/Checker.jpg

Síðast Checker leigubíllinn var byggður árið 1984 og síðasti Checker leigubíllinn á götum New Yorkborgar var af árgerð 1978. Hann var tekinn úr umferð árið 1999 og síðan boðinn upp. Ágætis verð fékkst fyrir hann eða 134.500 dollarar.