Chevrolet Bolt sýndur í Detroit

Bílasýningin í Detroit, háborg bandaríska bílaiðnaðarins, var opnuð sl. mánudag. Ein af nýjungunum sem þar gefur að líta er nýr rafmagnsbíll; Chevrolet Bolt. Bíllinn er frumgerð enn sem komið er, en Mary Barra forstjóri GM afhjúpaði hann á sýningunni og sagði að hann ætti að keppa á markaði við hinn nýja Tesla Model 3. Drægið yrði svipað eða rúmlega 300 kílómetrar, og verðið til neytenda yrði kring um 30 þúsund dollarar þegar búið er að draga frá verði hans opinbera styrki og meðgjafir til kaupenda rafbíla.

Bandaríski bílavefurinn Jalopnik hafnar fullyrðingu GM um að Bolt verði keppinautur nýja Tesla Model 3 bílsins á markaði og hið sama gerir Elon Musk forstjóri og eigandi Tesla Motors. Drægi bílanna verði að vísu svipað en flest annað ekki. Verð Tesla bílsins væntanlega hefur engu að síður verið gefið út og er sagt verða 35 þúsund dollarar við verksmiðjudyr. Frá því eigi síðan eftir að dragast opinberir styrkir og meðgjafir til kaupenda sem víðast hvar í USA nema um 7.500 dollurum. Neytendaverðið leggi sig þannig á 27.500 dollara sem þýðir að  neytendaverð Chevrolet Bolt verður 10 þúsund dollurum hærra en á Tesla bílnum.

Hinn nýi Telsa bíll hefur verið væntanlegur all lengi og boðaðri forkynningu hefur verið frestað í tvígang eftir að Tesla sýndi frumgerðina eða hugmyndarbílinn Model X. Model X var sagður vera einskonar forsmekkur að hinum nýja Model 3. Elon Musk segir við Jalopnik að Model 3 verði ólíkur öllum öðrum bílum í umferð þótt í útliti verði hann ekki neitt furðuverk. Notagildið verði í fyrirrúmi. Bíllinn verði um það bil 20 prósent minni en Tesla S. Í honum verði ýmis tæknibúnaður sem þegar er í S-gerðinni og annar lúxusbúnaður úr honum verði sömuleiðis fáanlegur sem aukabúnaður í þeim nýja. En Musk segir jafnframt að Tesla ætli sér að verða fyrsti bílaframleiðandinn sem bjóði upp á sjálfstýribúnað í bílunum. Það muni gerast um leið og bílaframleiðslugeiranum tekst að sannfæra neytendur um að sjálfkeyrandi bílar séu um það bil tíu sinnum hættuminni en bílar sem ekið er af manneskjum.

Spurður um álit hans á rafbílum með efnarafali sem breytir vetni í raforku, sagði Musk að sá búnaður væri til vitnis um óhemju bjánaskap. Því fyrr sem menn gæfu þær hugmyndir upp á bátinn, þeim mun betra. Það ætti eftir að sýna sig.