Chevrolet Camaro gengur aftur

http://www.fib.is/myndir/Camaro-2009.jpg
Chevrolet Camaro 2009

Hinn sögufrægi bandaríski Chevrolet Camaro sportbíll er í miðri endurfæðingu um þessar mundir og á að koma á markað á ný árið 2009. Frumgerð hins nýja Camaro var sýnd sem hugmyndarbíll á Detroit bílasýningunni í janúarmánuði sl. en nú hefur verið tilkynnt að ekki muni verða látið sitja við hugmyndina eina - Camaro muni koma aftur í ársbyrjun 2009.

Nýi Camaróinn verður eins og nýi Mustanginn, mjög líkur í útliti fyrstu árgerðinni sem leit dagsins ljós árið 1967. Hann verður dæmigerður amerískur kraftabíll - afturhjóladrifinn og vitanlega verður aðalvélin V8 og rúmlega 400 hestöfl, en fáanlegar verða minni V8 og V6 vélar að því er segir í frétt frá GM. Þar segir líka að bensíneyðslan verði mjög hófleg.
Hinn nýi Chevrolet Camaro verður framleiddur í Bandaríkjunum en hönnunar- og þróunarvinna hefur öll farið fram hjá dótturfyrirtækinu Holden í Ástralíu.

http://www.fib.is/myndir/Camaro-1967.jpg

Camaro kom sem fyrr segir á markað fyrst árið 1967 og er sú árgerð bílsins og næstu á eftir, sem þóttu og þykja enn mjög fallegar, nú í mjög háu verði. En smám saman eftir því sem árin liðu týndust sérkenni Camaro eitt af öðru og vinsældirnar sömuleiðis. Framleiðslunni var loks hætt árið 2002 en þá var Camaro vart nema svipur hjá sjón miðað við fyrstu árgerðirnar.

Hinn nýi Camaro mun keppa á markaði um hylli kaupenda við Ford Mustang og Dodge Charger. Síðastnefndi bíllinn kemur á markað ári á undan Camaro, eða árið 2008.