Chevrolet Cruze
Bílaframleiðendur senda nú sem óðast frá sér fréttir og myndir af þeim farartækjum sem þeir hyggjast sýna á Parísarsýningunni sem opnuð verður undir lok mánaðarins. Parísarsýningin og bílasýningin í Frankfurt eru haldnar til skiptis annað hvert ár og í ár verður það í París sem helstu og merkustu nýjungar í bílaheimi Evrópu koma fyrst fyrir augu bílaáhugafólks.
Chevrolet ætlar þar að sýna nýja útgáfu af sínum kóreska Chevrolet Cruze. Cruze hefur verið framleiddur sem stallbakur hingað til, það er að segja „sedan“ eða bara skottbíll en nýja gerðin er hlaðbakur eins og Sigurður Hreiðar bílablaðamaður gamla DV nefndi þá bíla sem á útlensku kallast Hatchback.
Hlaðbakurinn þykir ágætis viðbót eða afbrigði af Cruze, sem er talsvert vinsæll bíll og reyndar svo mjög að hann er söluhæsti Chevroletinn í heiminum um þessar mundir.
Chevrolet Cruze er svokallaður heimsbíll hjá GM en það þýðir að hann er gjaldgengur hvar sem er í heiminum og uppfyllir staðla og kröfur sem gerðar eru til bíla hvort heldur sem er austan- eða vestanhafs. Hann er nú nýkominn á Bandaríkjamarkað og í Kína hafa það sem af er árinu selst yfir 90 þúsund eintök af honum.
Með þessari nýju fimm dyra hlaðbaksútgáfu er ekki vafamál að staða Chevrolet Cruze styrkist í Evrópu. Bílar þessarar gerðar eru nefnilega mjög vinsælir í álfunni og eru um 65 prósent meðalstórra fólksbíla þar eru hlaðbakar.