Chevrolet eða Opel Volt?

http://www.fib.is/myndir/Volt1.jpg
Chevrolet/Opel Volt.

Automotive News Europe greinir frá því að markaðsfólk General Motors brjóti nú heilann um það hvernig markaðssetja skuli tengiltvinnbílinn/rafbílinn Volt í Evrópu. Skal hann heita Chevrolet Volt eða Opel Volt? Það sé vandinn.

Carl-Peter Forster Evrópuforstjóri GM lýsti því yfir ekki fyrir svo löngu að Opel skyldi framvegis vera með ímynd tækni og tækniframfara en Chevrolet skyldi vera með ímynd hefðar og íhaldssemi í tæknilegu tilliti. Þessi yfirlýsing veldur nú markaðsfólkinu höfuðverk að sögn Automotive News Europe. Ástæða þess er sú að á heimsvísu verður hið alþjóðlega nafn Volt bílsins, bílsins með E-Flex tvinnkerfinu Chevrolet. Hversvegna ætti þá að kalla bílinn öðru nafni í Evrópu en hann fær annarsstaðar um heiminn? spyr markaðsfólkið.  http://www.fib.is/myndir/Volt2.jpg

E-Flex tvinnkerfið er þannig í meginatriðum að aðal orkugjafinn er rafmagn sem geymt er í líþíum-jónarafhlöðum í bílnum. Rafhlöðurnar eru hlaðnar með því að stinga bílnum í samband við rafmagnsinnstungu en lítil dísil eða bensínvél tengd við rafal fer sjálfvirkt í gang þegar lækkar á geymunum. Nóg rafmagn á fullhlöðnum rafhlöðunum er til að koma bílnum allt að 100 kílómetra þannig að í daglegri innanbæjarnotkun er ekki líklegt að ljósavélin fari nokkru sinni í gang, gleymi fólk á annað borð ekki að stinga í samband þegar heim er komið að kvöldi.

Í Evrópu var upphaflega gert ráð fyrir því ljósamótorinn í Volt og öðrum bílum með E-Flex tvinnkerfi yrði dísilmótor. Einn af stjórnendum GM í Evrópu segir hins vegar við Automotive News Europe að nú sé verið að ljúka við þróun nýrra bensínvéla sem verði jafn sparneytnar og dísilvélar sem sambærilegar eru að afli. Tveir kostir, jafngóðir með tilliti til eyðslu verði því líklegast í boði.

Chevrolet Volt var fyrst sýndur sem hugmyndarbíll í Detroit 2007 og þá sem hreinn rafbíll. Á því rúma ári sem síðan er liðið er búið að vinna stöðugt að bílnum og tæknibúnaðinum í hann og á hann að koma á markað sem tvinnbíll, fyrst í Bandaríkjunum um mitt ár 2010 og í Evrópu undir lok sama árs.