Chevrolet Volt fær verðmiða

Rafbíllinn Chevrolet Volt  með innbyggðri rafstöð er væntanlegur á markað í Bandaríkjunum undir lok ársins. Nú hefur GM loks sett verðmiða á þennan tímamótabíl sinn. Bíllinn verður seldur í Evrópu undir nafninu Opel Ampera. Ekki hefur enn verið gefið neitt út um hvert evrópuverðið verður, en bandarískir bílafjölmiðlar telja verðið lægra en reiknað hafði verið með, en þó fremur hátt miðað við sambærilega hefðbundna bíla.

http://www.fib.is/myndir/Nissan_Leaf_june.jpg
Nissan Leaf.

Nýi rafbíllinn Nissan Leaf er væntanlegur á  Bandaríkjamarkað um svipað leyti og Chevrolet Volt og nokkuð er liðið síðan verð á honum var gefið út. Það þykir ekki hátt miðað við að um nýsköpun er að ræða og (ennþá) rándýra líþíumrafgeyma. Grunngerð Nissan Leaf verður fáanleg á 32.780 dollara og í Evrópu kostar bíllinn um 30.000 evrur.

Í Bandaríkjunum verður nokkurskonar staðalútgáfa af Chevrolet Volt seld á 41.000 dollara. Með besta búnaði sem nefnist Premium Volt Package verður svo verðið 44.600 dollarar. Í þeim pakka eru ýmsar græjur eins og sérvalinn litur, hiti í sætum, bakkmyndavél og léttmálmsfelgur með lághliða hjólbörðum.

En með þessum verðmiðum er þó ekki öll sagan sögð því að í Bandaríkjunum greiðir ríkið 7.500 dollara af verði rafbíla eins og Nissan Leaf og Chevrolet Volt fyrir kaupendur.

 Í Bandaríkjunum er það mjög algengt að fólk fái sér nýjan bíl á kaupleigu. Mörgum mun þykja það skynsamlegt þegar rafbílar eiga í hlut þar sem þeir eru nýjung og ákveðin óvissa er fólgin í því að festa kaup á svo mikilli nýjung sem rafbílar eru, enda þótt bæði Nissan og GM leggi í rafbílavegferðina með því að veita átta ára ábyrgð á bæði rafmótor og rafgeymum. Kaupleiguverðið er þegar útgefið: Fyrir Nissan Leaf er það 350 dollarar á mánuði en 349 dollarar fyrir Chevrolet Volt.

GM reiknar með að selja 10 þúsund  Chevrolet Volt af upphafsárgerðinni 2011 en hefur svigrúm til að auka framleiðsluna í 30 þúsund eintök ef eftirspurnin verður mikil. Hún er þegar allnokkur og biðlistar teknir að myndast. Búast má við að einn og einn bíll eigi eftir að berast til Íslands upp úr næstu áramótum og hugsanlega gefst tækifæri til kynningaraksturs þá. Nokkur eintök voru kynnt dönskum og sænskum blaðamönnum á mikilli sparaksturskeppni sem GM stóð fyrir dagana 24-25. júlí í Malmö og Kaupmannahöfn. Þeir létu mjög vel af bílnum, fannst  hann mjög góður í akstri, kraftmikill og með traustan undirvagn.