Chevrolet Volt með Google

Byrjað verður að afgreiða rafbílinn Chevrolet Volt/Opel Ampera Volt til kaupenda næsta haust. Bíllinn verður með fjölda rafrænna nýjunga sem ættaðar eru frá internet- og tæknifyrirtækinu Google. Meðal annars verður hægt að kveikja á hleðslu inn á geymana í bílnum með Google-farsímanum og opna hann ef lyklarnir hafa verið læstir inni í honum, en þetta er bara byrjunin segja talsmenn GM, framleiðanda bílsins.

http://www.fib.is/myndir/OnStar_Google.jpg
Skilaboð frá bílnum í Goggle símanum um
að geymarnir séu fullhlaðnir.

 Chevrolet Volt verður búinn leiðsögu- og hjálparkerfinu OnStar sem fáanlegt er í flesta nýja bíla frá GM. En Google síminn hefur ýmsa aukaþætti sem tengjast kerfinu eins og þeir tveir sem nefndir voru hér að ofan og hugmyndin mun vera að byggja inn í kerfið fleiri möguleika en nokkru sinni hafa áður þekkst í samskiptum eigenda við bíla sína.

Áður hefur verið sagt frá OnStar kerfi GM hér á fréttavefnum en kerfið sem er upphaflega var fyrst og fremst leiðsögukerfi, m.a. hringir sjálfvirkt í lögreglu og slysahjálparaðila ef bíllinn verður fyrir umferðaróhappi og gefur upplýsingar um staðsetningu og jafnvel umfang slyssins. Þá má nýta kerfið til að finna stolna bíla og eigandi getur gert stolna bílinn sinn óvirkan með farsímanum þannig að þjófurinn kemst hvorki lönd né strönd.

En sé nú ætlunin að fara í ferðalag á Chevrolet Volt mun eigandinn geta stungið út ökuleiðina í Google símanum sínum og síðan sent úr honum í OnStar kerfi bílsins, sem þá bíður tilbúið eftir því að lagt sé af stað. Hleðslustýringarforritið í Google símanum gerir mögulegt að leita uppi í símanum hvenær sólarhringsins rafmagnið er ódýrast á hleðslustað og kveikt á hleðslunni þegar verðið er lægst. Þá getur það stjórnað hleðsluspennunni, hvort hún á að vera t.d. 120 eða 240 volt.

Nú er þegar byrjað á því að víkka þetta Google/OnStar kerfi út þannig að því megi stjórna að mestu með talröddinni. Þá á bíllinn að geta sjálfvirkt sent SMS skilaboð þegar hann vantar straum á geymana og það sem betra er, hringt í farsímann og sagt sjálfur frá því sem hann vanhagar um, eins og meira rafmagn, loft í hjólbarðana eða hvaðeina annað sem hann vanhagar um. Allt þetta mun svo þegar fram líða stundir verða í öðrum nýjum bílum GM.