Chris Evans hættur í TopGear

Chris Evans aðalstjórnandi TopGear þáttanna á BBC er hættur. Hann tilkynnti þetta á Twitter fyrr í dag. Þar segist hann hafa gert sitt besta en það sé ekki alltaf nóg.

Top Gear skemmtiþáttaröðinni bresku hefur vegnað illa síðan þáttastjórinn Jeremy Clarkson var rekinn og hinir tveir meðstjórnendurnir, þeir James May og Richard Hammond  sögðu upp í kjölfarið. BBC réði þá dagskrárgerðarmanninn, milljónamæringinn og bílasafnarann Chris Evans sem aðalstjóra TopGear og meðstjórnendur með honum; bandaríska leikarann Matt LeBlanc og blaðamennina Rory Reid og Chris Harris. Þeir þættir sem sýndir hafa verið síðan hafa ekki fallið áhorfendum í geð og áhorfstölur hríðféllu eftir fyrsta þáttinn.

Samstarfið milli Chris Evans og meðstjórnenda hans virðist hafa gengið illa og fréttamiðlar hafa greint frá því að bæði Rory Reid og Matt LeBlanc hafi hótað að ganga út, verði Evans ekki rekinn. Hann sé óþolandi og óhæfur í samstarfi.

Þá hafa áhorfendur á vefmiðlum hellt sér yfir Chris Evans og frammistöðu hans og framgöngu á sjónvarpsskjánum. Hann gargi í stað þess að tala og leyfi vart nokkrum viðmælenda sinna að segja heila setningu.