Chrysler á bullandi siglingu

Ársfjórðungsuppgjör hjá Chrysler sýnir mjög batnandi heilsu þessa gamla bandaríska bílarisa sem kominn var að fótum fram fyrir ekki svo löngu. Sameiningin við Fiat hefur greinilega bætt heilsuna því að nettó rekstrartap reyndist „einungis“ 84 milljónir dollara sem er 56 milljón dollurum minna en við síðasta ársfjórðungsuppgjör.

http://www.fib.is/myndir/Sergio_marchionne.jpg
Sergio Marchionni forstjóri Fiat/Chrysler.
http://www.fib.is/myndir/Grand-cherokee-2011.jpg
Grand Cherokee 2011. Vöruvöndun og
strangt gæðaeftirlit.
http://www.fib.is/myndir/Fiat-500-2011.jpg
Fiat 500. Kominn á Bandaríkjamarkað.

 Sergio Marchionne forstjóri Fiat/Chrysler átti fyrir um 16 mánuðum frumkvæði að samstarfi og sameiningu Fiat og Chrysler sem báðir áttu í erfiðleikum en þó sýnu verr komið fyrir Chrysler en Fiat. Margur fjármálaspekúlantinn spáði illa fyrir þessu hjónabandi en nú er annað að koma í ljós. Sú endurskipulagning og samvinna um nýja bíla, og nýja tækni sem hófst fyrir tæpu einu og hálfu ári er strax að skila sér og Chrysler sem óðast að endurheimta fyrri stöðu sína á heimamarkaðinum í Bandaríkjunum. 

 Rekstur Chrysler það sem af er árinu er talsvert betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og ef þessi góða þróun heldur áfram er þess ekki langt að bíða að Chrysler taki að skila hagnaði á ný. En kálið er svosem ekki sopið þótt í ausuna sé komið og gæði og vöruvöndun er ekki enn komið í viðunandi lag að mati forstjórans. Í þeim efnum telur hann að Chrysler standi enn að baki GM og Ford sem hafa hert gæðastjórnina í framleiðslunni mjög sem hefur skilað sér í betri bílum – bílum sem minna bila. En samkvæmt fréttum frá Chrysler er verið að taka upp samskonar gæðakröfur í bílaverksmiðjum Chryslers og eru viðhafðar í verksmiðjum Fiat í Evrópu og fyrsta bílgerðin sem byggð er samkvæmt svonefndum „núllgallakröfum“ Fiat í Evrópu er nýja kynslóðin af Jeep Grand Cherokee. 

 „Á einungis 16 mánuðum hefur okkur tekist að setja á Bandaríkjamarkaðinn 16 nýjar tegundir og gerðir bíla, þeirra á meðal nýja Grand Cherokee jeppann og Fiat 500. Við munum sjá til þess að framvegis verða allir okkar bílar í sama hágæðaflokki hvað varðar frágang og tækni og Grand Cherokee. Því getiði treyst,“ sagði Sergio Marchionni á símafundi með bandarískum bílablaðamönnum í gær.