Chrysler bílar hafa batnað
Chrysler Group, sem nú er að stærstum hluta í eigu Fiat og alfarið undir stjórn Fiat, er greinilega farið að vanda betur til framleiðslunnar ef marka má nýja rannsókn bandaríska neytendatímaritsins Consumer Reports. Enn á þó Chrysler talsvert í land með að framleiða gæðabíla því að fimm af þeim átta bílgerðum sem úttektin náði til reyndust vera í slöku meðallagi.
Jeppinn Dodge Durango og stallbakurinn Charger (sem myndin er af) hafa batnað mest en báðir fengu einkunninna „mjög góður.“ Þegar Sergio Marchionne forstjóri Fiat tók við yfirstjórn Chryslers byrjaði hann á því að láta endurhanna og endurbæta báðar þessar gerðir og árangurinn er greinilega góður. En bílaprófunarmenn Consumer Reports voru ekki jafn ánægðir með drossíurnar Chrysler 200, Dodge Avenger, Dodge Journey og heldur ekki með jeppana Jeep Compass og Patriot. Allir fengu þessir bílar lægstu einkunn. Stórfjölskyldubíllinn Chrysler Town & Country þótti hins vegar all bærilegur þótt ekki þætti hann standa bestu bílum í þessum flokki á sporði.
„Það er greinilegt að Chrysler er á réttri leið þótt enn eigi þeir langt í land,“ segir David Champion framkvæmdastjóri bílaprófunarstöðvar Consumer Reports. Ekki er vafi á að afkoma Chrysler í náinni framtíð ræðst mjög af því að þeim takist að bæta bíla sína og ekki síst orðspor og gæðaímynd framleiðslunnar sem sannast sagna hefur ekki verið merkileg síðustu árin. Undanfarin þrjú ár hefur pallbíllinn Dodge Ram 1500 verið eini Chryslerbíllinn sem Consumer Reports hefur treyst sér til að mæla með við neytendur.
Mikið gæðaátak er nú í gangi hjá Chrysler og allt gæðaeftirlit og –stjórnun í framleiðslunni er nú með allt öðrum og markvissari hætti en áður var. Á undanförnum mánuðum hafa 16 nýjar eða stórlega endurbættar bílgerðir komið fram og Sergio Marchionne forstjóri væntir þess að það muni skila sér í aukinni sölu og betri afkomu á næsta ári. Og óneitanlega virðist hann vera á réttri leið.