Chrysler í Bandaríkjunum í vandamálum

http://www.fib.is/myndir/Chrysler-imperial.jpg
Chrysler Imperial. Stórir þyrstir bílar seljast illa í Bandaríkjunum.

Reuters fréttastofan greindi frá því í gærmorgun að DaimlerChrysler samsteypan, sem m.a. á og rekur Mercedes Benz og Chrysler og framleiðir Chrysler- og Benzbílabíla bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, ætli að skera verulega niður bandarísku Chrysler-bílaframleiðsluna þar sem hún er rekin með stórtapi og jafnvel selja hana frá. Tilkynnt var að 13 þúsund störf í Bandaríkjunum yrðu lögð niður.

En þótt Chrysler í USA standi illa þá stendur DaimlerChrysler ágætlega á heildina litið og nettóhagnaður síðasta árs er 3,2 milljarðar evra miðað við 2,8 milljarða árið áður.

Dieter Zetsche forstjóri DaimlerChrysler tilkynnir væntanlega í hádeginu í dag hver verða næstu skref í málinu en hann hefur fengið fjárfestingabanka til að meta kostina í stöðunni og greina stöðu einstakra fyrirtækja í samsteypunni. Dagblaðið Frankfurter Allegemeina Zeitung hafði í gær eftir heimildum innan DaimlerChrysler að óbreytt ástand væri ólíklegasti kosturinn. Fyrir utan að selja Chrysler í Bandaríkjunum væri líka hugsanlegt að aðskilja það frá samsteypunni og láta það standa á eigin fótum sem sér fyrirtæki á eigin kennitölu sem annaðhvort spjarar sig eða fer hreinlega á hausinn.

Þessar fréttir í gær virðast hafa aukið tiltrú á DaimlerChrysler því að verð hlutabréfa í samsteypunni steig í morgun um 1,5% á evrópskum hlutabréfamörkuðum.