Chrysler í uppgangi á heimavellinum

Chrysler bætir stöðugt stöðu sína á heimamarkaðinum í Bandaríkjunum eftir samrunann við Fiat í nýliðnum októbermánuði seldi Chrysler 27 prósent fleiri nýja bíla en í sama mánuði í fyrra. Í heild seldust í október 1.021.200 bílar sem er 8 prósent fleiri bílar í Bandaríkjunum en í fyrra. Næst mesta aukningin í prósentum talið varð hjá Hyundai, 22 prósent. F-pallbílalínan frá Ford er lang vinsælustu bílar í Bandaríkjunum. Af F-bílum seldust 52.511 eintök.

Tiltrú Bandaríkjamanna á Chrysler hefur greinilega aukist verulega eftir samrunann við Fiat. Bílaúrvalið hefur einnig stækkað auk þess sem Fiatbílar eru farnir að hreyfast á Bandaríkjamarkaði í fyrsta sinn um áratugaskeið. Það er ekki síst Fiat 500 sem kaupendur hafa áhuga á en af honum seldust rétt tæp  tvö þúsund eintök í október sl.

Hyundai (að Kia meðtöldum) hefur verið að dafna jafnt og stöðugt undanfarin ár í Bandaríkjunum og í október seldust 90.100 Hyundai og Kia bílar. Þá seldust 28 þúsund bílar frá Volkswagen Group (VW, Audi og Bentley) en það er 36 prósenta aukning miðað við sama mánuð í fyrra. General Motors seldi flesta bílana í mánuðinum eða 186.900 bilar. Miðað við október í fyrra er það ekki veruleg aukning, eða einungis 2%. Ford varð í öðru sæti með 167.500 bíla (6% aukning). Sölulistinn lítur annars svona út:

1. Ford F-Series pickup: 52.511
2. Chevy Silverado pickup: 36.656
3. Honda Accord: 22.589
4. Toyota Camry : 22.043
5. Nissan Altima: 21.838
6. Ram (Dodge) pickup: 21.037
7. Honda CR-V: 19.326
8. Ford Escape: 19.046
9. Hyundai Sonata: 18.192
10. Ford Fusion: 18.094