Chrysler og Fiat hætta við rafbílana

Chrysler og Fiat ætla ekki að fjárfesta krónu meir í rafknúnum knýbúnaði (vélar, gírkassar og drif). Rafbílarnir eru enn of dýrir og neytendur eru ekki enn tilbúnir til að borga brúsann, þótt umhverfisverndarsinnaðir séu. Áherslan verður á sparneytnar bensín og dísilvélar. Þetta sagði Bob Lee, yfirmaður þróunardeildar Fiat og Chryslers á tækniráðstefnu í Traverse City í Michigan í fyrradag.

Fiat 500 hefur verið fáanlegur í Bandaríkjunum undanfarið sem rafbíll, en framleiðslu á honum verður hætt.. –Við munum ekki fást frekar við rafbílaþróun og –framleiðslu fyrr en viðskiptavinirnir eu tilbúnir til þess að greiða rétt verð fyrir raftæknina, sagði Bob Lee.  Hann sagði að vissulega skildu bílakaupendur flestir að rétt og skynsamlegt sé að draga sem mest úr CO2 losun. Þeir væru bara ekki tilbúnir til þess ennþá að breyta lífsstíl sínum og greiða þann kostnað sem rafbílunum fylgir. Hann taldi því ólíklegt að rafbílar yrðu almenningseign næsta áratuginn eða svo. Þangað til væru það bensín- og dísilvélarnar sem giltu á bandaríska bílamarkaðinum, það er að segja litlar, sparneytnar en öflugar vélar með túrbínum. Á þær og þróun þeirra verður aðaláherslan næstu árin.