Chrysler rafmagnsbíll á markað 2010

http://www.fib.is/myndir/Chryslerrafbill.jpg

Frumgerð rafbíls sem Chrysler hefur sýnt á bílasýningum undanfarið.

CNN greinir frá því að Chrysler LLC boði rafknúinn bíl sem koma skal á markað í Bandaríkjunum og Kanada árið 2010.

Á blaðamannafundi fyrirtækisins í höfuðstöðvunum í Auburn í Michigan nýlega voru til sýnis þrjár frumgerðir rafbíla og sagt að ein þeirra kæmi á markað 2010. Þetta voru rafknúinn Dodge sportbíll, Jeep Wrangler jeppi og Chrysler Minivan tvinnbílar. Þróunarstjóri Chryslers, Frank Klegon sagði að enn væri ekki búið að ákveða hver þessara bíla það yrði sem fyrst kæmi á markað sem rafbíll.

Dodge sportbíllinn er einungis rafknúinn eins og Tesla Roadster raf-sportbíllinn margumtalaði. Jeep Wrangler jeppinn og Chrysler fjölnotabíllinn verða hins vegar tengiltvinnbílar eins og Chevrolet Volt. Rafmagnið verður aðal orkugjafinn en í bílunum verður ljósamótor sem fer í gang þegar lækka tekur á geymunum, og hleður inn á þá.

Ekki var uppgefið á fundinum við hvaða rafgeymaframleiðendur Chrysler hyggst eiga samvinnu við. Þróunarstjórinn sagði hins vegar að rætt hefði verið við allnokkra aðila um tæknileg atriði tengdum rafhlöðum í bíla.