Chrysler Voyager m. hægrihandarstýri fellur á árekstursprófi EuroNCAP

http://www.fib.is/myndir/Euroncap-logo.jpg

Euro NCAP gaf út nú í hádeginu niðurstöður úr nýjustu árekstursprófunum sínum. Í frétt stofnunarinnar koma fram mikil vonbrigði með bílaframleiðendur sem ennþá láta sér í léttu rúmi liggja öryggi fólksins í bílum þeirra. Hér er átt við Chrysler Voyager bíl með hægrihandarstýri. Hann fellur gersamlega á þessu öryggisprófi og hlýtur einungis tvær stjörnur af fimm og tæplega þó, því að önnur stjarnan er gegnumstrikuð.

Í fréttinni segir að enn einu sinni hafi Chrysler hundsað tilmæli EuroNCAP til bílaframleiðenda um að byggja bíla með öryggi þeirra sem í bílnum eru í huga. Chrysler Voyager hafi enn einu sinni sýnt sig að vera óöruggur bíl, sjö árum eftir að hafa komið út úr árekstursprófi EuroNCAP með einungis tvær stjörnur.

EuroNCAP prófaði í fyrsta sinn svokallaða fjölnotabíla, þeirra á meðal Chrysler Voyager árið 1999. Einungis tveir af þeim átta sem þá voru prófaðir náðu fjórum stjörnum sem þá var það hæsta sem gefið var. Í prófununum þá tóku menn eftir því að fjölnotabílarnir voru veikari gagnvart framanákeyrslu en fólksbílar af sömu tegundum almennt voru. Flestir framleiðendur hafa í kjölfarið styrkt fjölnotabíla sína að þessu leyti og er þess skammt að minnast að í ágúst í fyrra prófaði EuroNCAP nýja fjölnotabílinn Ford S-Max og hlaut hann 36 stig og fimm stjörnur, sem er besti árangur fjölnotabíls til þessa.

En þrátt fyrir framfarir í öryggi fjölnotabíla sýnir hinn slaki árangur Chrysler Voyager að sumir framleiðendur eru enn að selja bíla sem lítið hafa lagast síðan árið 1999. Voyager bíllinn er reyndar svo lélegur að hann er langt frá því að ná þremur stjörnum sem telst vera algert lágmark hvað varðar öryggi fullorðna fólksins í bílnum. Í árekstursprófinu sýndi það sig að hætta á að deyja eða slasast alvarlega í árekstri í þessum bíl er svo mikil að óviðunandi er. Vegna þess hve þessi hætta er mikil er önnur stjarnan gegnumstrikuð.

Stjórnarformaður Euro NCAP; Claes Tingvall sagði þegar niðurstöðurnar voru kynntar nú fyrir stundu: „Það vekur manni hroll hvernig þessi tiltekni framleiðandi hefur í sjö ár hundsað að auka öryggi þessa fjölnotabíls – bíls sem beint er sérstaklega að bresku fjölskyldufólki. Og ekki skánar það þegar Chrysler heldur áfram að selja þennan hægrihandarstýrða varasama bíl í Bretlandi þegar vinstrihandarstýrður og nokkuð öruggari samskonar bíll er á markaði í öðrum löndum Evrópu. Ég ætla bara rétt að vona að Chrysler sýni meiri áhuga á öryggismálunum í framtíðinni en þetta,“ sagði Claes Tingvall.

Claes Tingvall sagði ennfremur að það væru vonbrigði hversu illa allir bílarnir í þessari prófun vernda gangandi vegfarendur. Í því efni sé Voyager verstur og Grand Cherokee sem einnig er frá Chrysler er jafnslæmur hvað varðar vernd fótgangandi en hann var prófaður árið 2005.

Helstu niðurstöður

Fjölnotabílar


Chrysler Voyagerhttp://www.fib.is/myndir/CHRYSLER%20Grand%20Voyager_Front.jpg
Vernd fullorðinna: 2 stjörnur (gegnumstrikað)
Vernd barna: 4 stjörnur
Vernd fótgangandi: 0 stjarna

Jepplingar

Chevrolet Captivahttp://www.fib.is/myndir/CHEVROLET%20Captiva_Front.jpg
Vernd fullorðinna: 4 stjörnur
Vernd barna: 3 stjörnur
Vernd fótgangandi: 2 stjörnur

Smábílar


Volkswagen Eoshttp://www.fib.is/myndir/VW%20Eos_Frontal.jpg
Vernd fullorðinna: 4 stjörnur
Vernd barna: 4 stjörnur
Vernd fótgangandi: 2 stjörnur

 

Volvo C30http://www.fib.is/myndir/VOLVO%20C30_Front.jpg
Vernd fullorðinna: 5 stjörnur
Vernd barna: 4 stjörnur
Vernd fótgangandi: 1 stjarna