Citroën Revolte – arftaki braggans

Kannski er Citroën Revolte sérstæðasti bíllinn á bílasýningunni í Frankfurt sem nú stendur yfir. Um talsvert skeið hefur gengið orðrómur um að frá Citroën sé að vænta nýtísku bíls sem sæki útlit sitt til gamla Braggans svipað og Fiat 500 og Mini hinir nýju. Ekkert slíkt hefur þó fengist staðfest þar til nú að óvænt birtist frumgerð slíks bíls á sýningarsvæði Citroën í Frankfurt. Svipmót þessa nýja bíls er augljóslega frá gamla Bragganum komið en að öðru leyti er um gerólíkt farartæki að ræða að því best verður séð.

http://www.fib.is/myndir/2cvreal.jpg

Citroën 2CV eða Bragginn sjálfur.

 

Fréttatilkynning Citroën um þennan nýja bíl er mjög orðmörg en innihaldsrýr hvað varðar upplýsingar. Sáralítið er þar að finna um tæknilegar hliðar hans, hvort eða hvenær framleiðsla og sala gæti hafist en með skrúðmælgi er því lýst yfir að hér sé komin eins konar samsvörun hins sígilda Bragga, eða 2CV, eins og gerðin hét – samsvörun sem þó sé gerólík gamla 2CV því að ekki sé sá nýi einfaldur sveitamannabíll eins og 2CV var upphaflega hugsaður fyrir 60 árum, heldur borgarbíll uppfullur af hátækni og lúxus. Það litla sem sagt er um tæknilegu hliðina er það að sýingarbíllinn sé tengiltvinnbíll og mjög sprækur og fljótur að ná upp hraða.

http://www.fib.is/myndir/Citr-Revolte-3.jpg  
Stýrið er ekki eins og stýri ´bílum eru oftast - kringlótt.  

 Og Revolte er mjög sérstakur eins og sjá má af meðfylgjandi myndum. Innréttingin er milt sagt óvenjuleg og óhefðbundin. Hann er fjögurra dyra og afturdyrnar eru svokallaðar sjálfsmorðsdyr, það er að segja að að lamirnar eru á aftanverðum hurðunum sem þá opnast upp á móti akstursstefnunni.

 

http://www.fib.is/myndir/Citr-Revolte4.jpg

Framendinn með svip af gamla 2CV.

Enginn B-stólpi er í hliðum bílsins milli fram- og afturdyra þannig að öll hlið bílsins inn í farmþegarýmið opnast. Afturí er sófi fyrir tvo og sá sem situr hægra megin í honum getur teygt fætur sína rækilega því að ekkert farþegasæti er við hlið ökumanns. Þar er hins vegar rými fyrir afturvísandi barnastól eða þá farangur ef ekkert er barnið.

  Engu er líkara en  ökumannsstóllinn sé fenginn úr geimskipi í Star Wars bíómynd og sömu sögu er að segja um stýrið sem ekki er hringlaga eins og maður á að venjast. Í mælaborðinu er svo stór snertiskjár. Sólarsellur eru á þaki bílsins sem framleiða rafstraum fyrir loftræstingu bílsins sem fer í gang þegar þörf er á, eins þótt bíllinn sé á stæði og enginn í honum.