Cobra-höfundurinn látinn

Bandaríski bílahönnuðurinn, kappakstursmaðurinn og goðsögnin Carroll Shelby er látinn, 89 ára gamall. Þekktastur er Shelby fyrir AC Cobra sportbílinn frá byrjun sjöunda áratugarins þar sem blandað var saman bandarískri og breskri bíltækni. Þá endurbætti hann Ford Mustang bíla sem, eftir að Shelby hafði farið um þá höndum, fengu nöfn eins og Mustang Cobra og Mustang Shelby GT500.

Carroll Shelby var flugmaður og flugkennari í bandaríska flughernum á stríðsárunum. Eftir stríðið gerðist hann kjúklingabóndi en sýking sem kom í stofninn batt enda á ræktunarferilinn. Þá gerðist hann kappakstursmaður og gekk í keppnislið Aston Martin í Bretlandi jafnframt því sem hann endurbætti keppnisbíla og sportbíla og hannaði nýja. Hann var sigursæll kappakstursmaður og minnistæður er sigur hans í 24 tíma kappakstrinum á Le Mans brautinni í Frakklandi árið 1959.

Sá bíll sem sennilega  mun halda nafni hans hvað lengst á lofti er Cobra sportbíllinn. AC var breskur tveggja manna sportbíll sem Shelby breytti á ýmsan hátt árið 1962. Meginbreytingin var sú að í stað fjögurra strokka vélarinnar setti hann mjög öfluga V8 vél frá Ford í bílinn og skapaði þannig hraðskreiðasta sportbíl sem þá hafði nokkru sinni fyrirfundist. Cobra sportbíllinn er í dag mjög vinsæll sem „kit“ bíll. Það þýðir að hægt er að kaupa hann í pörtum og setja saman sjálfur.