Coda frá Kaliforníu

Alltaf af og til koma fram í dagsljósið nýjar tegundir og gerðir rafbíla þótt fæstar þessara nýjunga séu ættaðar frá hinum hefðbundnu bílaframleiðendum, sem hlýtur að vekja nokkra undrun. Nýjungarnar í þessum málum hafa langflestar komið frá aðilum eins og háskólum, uppfinningafólki og sprotafyrirtækjum sem leita nýrra og hagkvæmari leiða undir merkjum sjálfbærni og umhverfisverndar. Bílaframleiðendurnir hafa fremur leitast við að bæta og framþróa hina hefðbundnu bílatækni og gera brunahreyflana stöðugt nýtnari á eldsneytisdropana og þar með umhverfismildari og hafa vissulega náð afbragðs árangri. Ekki skal gert lítið úr framlagi þeirra í þeim efnum.

Fyrirtæki í Kaliforníu í Bandaríkjunum sem heitir Coda hefur nú komið fram með frumgerð rafbíls sem er afar hefðbundinn í útliti en talsvert áhugaverður, bæði í tæknilegu tilliti en ekki síður hvað varðar þá fjölmörgu alþjóðlegu aðila sem að gerð bílsins koma. Af því má ráða að talsverð alvara sé að baki þessum Coda-bíl.

Rafmótorinn í Coda er frá UQM, 134 hö. Í honum er stiglaus sjálfskipting frá Borg Warner sem kallast eGear Drive. Bíllinn næsr 100 km hraðanum á 11 sek. og hámarkshraðinn er forritanlegur og getur verið talsvert breytilegur. Þau eintök sem nú eru í prófunum og reynsluakstri eru forrituð þannig að hámarkshraðinn er ekki meiri en ca 140 km á klst.

Rafhlöðupakkinn í bílinn sem er sérhannaður, er framleiddur í Kína af Lashen Power. Kínverjarnir ábyrgjast átta ára eða 160 þúsund km endingu rafhlaðanna og stuttan hleðslutíma. Átta tíma mun taka að fullhlaða tóma geymana. Allur nútíma öryggisbúnaður er í Coda bílnum - búnaður eins og ABS hemlar, ESC stöðugleikabúnaður og sex loftpúðar. Sérstakt hita- og loftræstikerfi er fyrir rafhlöðurnar sem tryggir góða endingu þeirra og afköst við allar aðstæður, hvenær sem er.

CODA hefur fengið stuðning frá Kaliforníuríki við að þróa bílinn og koma framleiðslu af stað. Hún á að hefjast á næsta ári og þá áætla menn að framleiða 14 þúsund bíla.