Corolla ennþá mest seldi bíll veraldar

Toyota Corolla.
Toyota Corolla.

Þrátt fyrir lítilsháttar sölusamdrátt fyrstu fjóra mánuði þessa árs þá er Toyota Corolla enn mest seldi bíll í veröldinni og langt bil milli Corolla og þeirra bíla sem næstir koma í baráttunni um „heimsmeistaratitilinn,“ Þeir eru VW Golf og Ford F-línan.

Allar þessar þrjár bíltegundir og –gerðir eiga sér langa forsögu. Lengst er hún um Ford F-pallbílana en framleiðslan á þeim hófst árið 1948. Fyrsta Corollan birtist svo árið 1966 og var hún harla ólík nútíma-Corollunni og miklu minni bíll. Yngstur er VW Golfinn en hann kom fram vorið 1974 og leysti gömlu Bjölluna af hólmi.  

Þessar upplýsingar er að finna á tölfræðivefnum focus2move.com en á honum er haldið utan um hverskonar tölfræði sem tengist bílum og bílaiðnaði. Tölurnar um mest seldu bíla heimsins eru unnar úr nýskráningartölum yfir 2700 gerðir bíla á 140 helstu bílamarkaðssvæðum heimsins. Bílarnir sem tölurnar ná til eru fólksbílar og minni sendi- og pallbílar og þær sýna að á fyrstu fjórum mánuðum ársins jókst sala í heiminum á fólksbílum og léttum sendi- og pallbílum um 2,7 prósent og varð 30,3 milljónir bíla.

Athygli vekur hversu góðs gengis hin nýja kynslóð Toyota RAV4 nýtur en bíllinn hefur á tímabilinu selst meir en bæði Honda CR-V og Toyota Camry. Þá hefur ný kynslóð Honda Civic greinilega slegið í gegn og hækkað um heil átta sæti miðað við sama tíma í fyrra. Honda Civic er nú næst mest seldi fólksbíll í Bandaríkjunum á eftir Toyota Camry.  

Á listanum yfir 15 mest seldu bílategundir og –gerðir eru sum heiti bílanna ókunnugleg. Í 11. sætinu er t.d. Volkswagen Lavida sem er kínversk útgáfa VW Passat. Í 10. sæti er Wuling Hong Guang en það er fjölnotabíll sem General Motors framleiðir í Kína. Hann er með þremur sætaröðum og er sami bíll og kallast Chevrolet Enjoy í Indlandi.  

15 mest seldu bílagerðir heims janúar-apríl 2016 í þús. eintaka

1. Toyota Corolla   

431’

2. VW Golf

358’

3. Ford F-serían   

310’

4. Ford Focus  

261’

5. VW Polo  

261’

6. Toyota RAV4 

221’

7. Honda CR-V 

220’

8. Toyota Camry 

219’

9. Hyundai Elantra 

212’

10. Wuling Hong Guang

207’

11. VW Lavida 

201’

12. Chevrolet Silverado

200’

13. Honda Civic

198’

14. VW Jetta  

193’

15. Toyota Hilux  

187’