Costco lækkar eldsneytisverð

Costco í Kauptúni í Garðabæ lækkaði í dag verð á bensíni og dísel. Lítrinn af bensíni kostar 166,90 krónur en fyrir lækkunina kostaði hann 169,30 krónur. Lítrinn af dísel kostar í dag 158,9 krónur en var 161,90 krónur fyrir lækkunina.

Hafa skal í huga að verð á dísellítranum hafði áður lækkað í Costco. Það átti sér stað tveimur dögum eftir opnun verslunarinnar 23. maí sl. en þá kostaði hann 164,9 krónur.

Næst ódýrast er eldsneyti á Orkan X. Þar kostar lítrinn af bensíni 180,10 krónur og lítrinn af dísel kostar 167,60 krónur.

Eins og áður hefur komið fram þarf aðildarkort Costco til að versla á bensínstöðinni í Kauptúni. 4.800 krónur kostar einstaklingsaðildin.