Dacia bílabúðir á vefnum

Á morgun, þann 16. september verður opnuð nokkuð sérstök vefverslun. Vefverslun þessi er eingöngu með nýja bíla af gerðinni Dacia. Dacia er rúmenskt  bílaframleiðslufyrirtæki alfarið í eigu Renault. Samkvæmt frétt frá Renault er þetta fyrsta vefverslunin af mörgum og er hún á Ítalíu og er slóðin www.dacia.it/dacia-store.. Síðarmeir verða svo fleiri opnaðar í hverju landinu af öðru.

Vefsíðurnar þar sem Dacia bílar eru á boðstólum, verða einfaldar og auðveldar í notkun að því er segir í frétt frá Renault. Kaupendur bílanna geta gengið frá öllu varðandi bílinn á vefsíðunni, það er að segja hvernig bíllinn verður búinn og hvernig hann verður á litinn. Tveir litir verða sérstaklega í boði í netverslununum sem ekki verða í boði hjá almennum söluumboðum. Þegar svo kaupandi hefur valið bílinn sinn í vefversluninni og gengið frá fyrstu greiðslu fær hann bílinn afhentan í næsta söluumboði eftir tilsettan tíma.

Segja má að Dacia bílarnir séu einskonar ódýrari og einfaldari gerðir Renault bíla. Þrátt fyrir það eru í boði valkostir um ýmsan búnað bílanna, liti, vélargerðir o.fl. Þannig verða sérstakar „Netgerðir“ Daciabíla í boði í netverslununum. Þessar sérstöku „Netgerðir“ bjóðast ekki hjá söluumboðum Dacia. Þær verða þó ekki dýrari en aðrar gerðir heldur þvert á móti. Það verður áfram lágt segir í fréttinni frá Renault. „Við verðum áfram trú hugsjónum okkar um lágt verð, gæði og áreiðanleika og skynsemi. Enn á ný munum við umbylta bílamarkaðinum. Í þetta skiptið með því að bjóða þeim fjölmörgu sem handgengnir eru Netinu, bifreiðar til sölu á þeim vettvangi og um leið nýta þá miklu kosti sem því fylgja í þágu kaupendanna,“ segir í tilkynningunni.

http://www.fib.is/myndir/DaciaSandero.jpg
Dacia Sandero.
http://www.fib.is/myndir/Dac-Sandero-Stepway.jpg
Dacia Sandero Stepway.

Það er ekki tilviljun að fyrsta Dacia Netverslunin er opnuð á Ítalíu því að Dacia bílar eru vinsælir og útbreiddir þar, með 2,1 prósents markaðshlutdeild á fólksbílamarkaðinum sem fer jafnt og þétt vaxandi.  Kaupin í vefversluninni fara þannig fram að þegar búið er að velja bílinn, lit og búnað hans, er valið Dacia-söluumboð. Þvínæst eru valdir greiðslumöguleikar og fyrsta afborgun greidd. Netverslunin er þannig á öðrum þræði pöntunarþjónusta. Verksmiðjunni í Rúmeníu berst síðan pöntunin og setur bílinn saman eftir óskum kaupanda og sendir hann síðan til þess söluumboðs sem kaupandi hefur tiltekið. Meðan á samsetningu bílsins stendur er haft samband við kaupanda með tölvupósti um hvað gert hefur verið, hvar bíllinn er í framleiðsluferlinu og hvort hann er eins og um var beðið að öllu leyti. Síðan er hann sendur til söluumboðsins ásamt sölugögnum. Umboðið afhendir svo kaupandanum bílinn og tekur við lokagreiðslu.  Eftir það er haft reglulega samband við kaupandann um viðhald og meðferð bílsins, skoðun á honum á ábyrgðartíma og annað sem viðkemur honum.

Í fyrstu Dacia vefversluninni verða sérstakar vefútgáfur í boði sem opnunartilboð. Það er a) Dacia Sandero Ambiance Online með 1.2l 75 ha. bensínvél. Í bílnum eru hljómtæki með geisladiska- og MP3 spilurum, AC-miðstöð/kæling, perluhvítt sæta- og innréttingaáklæði og hálfgagnsætt þak úr koltrefjaefni. b) Dacia Sandero Stepway Online með 1.5 DCI 90 hp DPF dísilvél. Hann er með svipaðri innréttingu og innri búnaði en með toppbogum að auki.