Dacia Duster vinsæll á bílaleigunum

Á síðasta ári voru 5.119 bílaleigubílar nýskráðir hér á landi, 27,3% færri en 2018 þegar þeir voru 7.039. Hins vegar nýskráðu leigurnar 106% fleiri bíla í síðasta mánuði ársins eða alls 268 í stað 130 á árinu 2018. Þriðja árið í röð var Dacia Duster vinsælastur á bílaleigunum.

Nissan Leaf söluhæstur bíla á rafbílamarkaði hér á landi á síðasta ári með 194 skráningar. Fast á hæla hans kom Hyundai Kona með 187 skráningar. Greinilegt er að einstaklingar líta í síauknum mæli til rafbíla og annarra umhverfismildra lausna þegar kemur að bílakaupum og má geta þess að rafbílar rúmlega tvöfölduðu hlutdeild sína á innanlandsmarkaði milli áranna 2018 og 2019 þar sem hún fór úr 6% í rúm 13% prósent.

Hlutdeild tvinnbíla (Hybrid) jókst einnig á árinu, fór úr 7% í 13,3% á sama tíma og hlutdeild tengiltvinnbíla (PHEV) dróst saman um tvö prósentustig þar sem hún fór úr 17,5% í 15,5%, sem skýrist að mestu leyti af framboðsskorti. Þá minnkaði sala á hefðbundnum bensínbílum um 3,9% og dísilbílum um 7,2% milli ára.