Dacia eykur markaðshlutdeild sína í Evrópu

Árið 2018 var sérlega hagstætt bílaframleiðandanum Dacia, sem seldi alls 700.798 bíla á mörkuðum heimsins, 7% fleiri en 2017. Sölumet var sett á Evrópumarkaði, þar sem 10,3% aukning varð á árinu og 511.622 bílar nýskráðir.

Markaðshlutdeild Dacia fór í Evrópu í 2,9% sem er aukning um 0,3 prósentustig. Góðum árangri er einkum að þakka fjórhjóladrifna jepplingnum Duster sem kynntur var á árinu í uppfærðu útliti og með meiri öryggis- og þægindabúnaði. Einnig kynnti Dacia uppfærða útgáfu af fólksbílnum Sandero sem nýtur sérlega mikilla vinsælda í Frakklandi og heimalandinu, Rúmeníu enda verðið afar hagstætt.

Dacia hefur aldrei selt fleiri fólks- og sendibíla í Frakklandi en á síðasta ári, alls 141.586 eintök. Aukningin nam 18,6% og eru fólksbílar Dacia nú þeir fjórðu mest seldu í Frakklandi.

Bílgerðir Dacia eru mjög vinsælar meðal einstaklinga og á þeim markaði eingöngu er Dacia nú þriðja söluhæsta merkið í Frakklandi og Dacia Sandero sá mest seldi í flórunni. Sandero er jafnframt sá fimmti mest seldi á lista 10 vinsælustu bílategundanna.

Ný kynslóð Duster sló algerlega í gegn meðal Frakka á árinu enda jókst salan um nær 40% í kjölfar frumsýningar nýja bílsins. Er Duster nú í níunda sæti yfir mest seldu bílana til einstaklinga í Frakklandi.