Dacia - hástökkvarinn í Evrópu - VW mest selda tegundin

http://www.fib.is/myndir/Dacia-logan.jpg

Dacia Logan.

Í ágústmánuði sl. voru rúmlega 952.000 fólksbílar nýskráðir í Evrópu sem er 2,5% fleiri bílar en í sama mánuði í fyrra. Langmestur vöxtur varð í sölu nýrra bíla í Eystrasaltslöndunum og Rúmeníu af einstökum bíltegundum varð mest söluaukning hjá Honda, Mini, Dacia og Chevrolet. Mesta hlutfallsleg fjölgun nýskráninga á einstökum tegundum það sem af er árinu varð hjá Dacia, 20,9% (rúmlega 114.000 nýskráningar).

Frá ársbyrjun til og með ágústmánuði þessa árs hafa samtals 10.823.580 nýir fólksbílar verið skráðir í Evrópu sem er 1% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. Af einstökum löndum varð aukningin mest í Lettlandi 46,7%, í Litháen 42,4% og Eistlandi 29,4%. Vel gekk bílgreininni einnig í Rúmeníu þar sem aukningin varð 29,2%, Póllandi 24,6% og í Noregi 23,2%. Á Ítalíu varð aukningin 7,3% og í Bretlandi 2,2%, Frakkland stóð í stað og samdráttur varð í Þýskalandi um 7,6% og í Ungverjalandi um 9,7%.

Af einstökum tegundum var mest hlutfallsleg aukning hjá Dacia, Mini og Honda það sem af er árinu miðað við sama tíma í fyrra. Sigurvegarinn er Dacia en sala á Daciabílum jókst um 20,9% (114.000 nýskráningar) Næstur kemur Mini með 18,8% aukningu (91.865 nýskráningar) og Honda með 15,4% aukningu (211.852 nýskráningar). Í fjórða sæti „hástökkvaranna“ kemur svo Chevrolet með 13,8% aukningu (134.607 nýskráningar). Önnur bílamerki sem bættu sinn hlut voru Volvo 10,2%, Fiat 8,8%, Lancia 6,7% og Suzuki 5,9%. Móðurfyrirtæki Volvo er Ford. 2,2% aukning varð hjá Ford samsteypunni í heild þrátt fyrir 18,9% fækkun nýskráninga hjá Jaguar.

Mest afturför varð hjá Smart eða -22,4% en samkvæmt tölum um nýskráningar í ágústmánuði er greinilegt að hins nýja kynslóð Smart Fortwo sem þá kom fram, er að gera sig ágætlega því að nýskráningar Smartbíla voru 10,1% fleiri en í ágúst á síðasta ári. Önnur bílamerki sem tapað hafa markaðshlutdeild það sem af er árinu miðað við sama tímabil síðasta árs eru Jaguar með -18,9% sem fyrr er sagt, Nissan -10,6%, Renault -10,2%, Mazda -9,4%, Saab -9,1%, Hyundai -6,4% og Kia -5,4%.

Það sem af er árinu er Volkswagen mest selda bíltegundin með 1.099.143 nýskráningar. Næst stærstir eru Opel/Vauxhall með 916.917 nýskráningar, Ford með 877.658 nýskráningar, Renault með 821.516 nýskráningar og loks Peugeot með 765.893 nýskráningar. Hjá BMW byrjaði árið ekki vel en staðan hefur mjög batnað og er fjölgun nýskráninga hjá BMW 2,5% og alls hafa verið nýskráðir 452.412 BMW bílar.

Volkswagen samsteypan sem heild jók hlut sinn um 0,2%. Að baki þeirri tölu liggur 2,7% samdráttur hjá Volkswagen, 0,5% samdráttur hjá Seat, 5,1% aukning hjá Audi, 4,2% aukning hjá Skoda og samtals 30,6% aukning hjá Bentley, Bugatti og Lamborghini.

2,1% samdráttur varð hjá DaimlerChrysler. Að baki liggur fyrrnefndur 22,4% samdráttur hjá Smart, 0,1% aukning hjá Mercedes og 4,2% aukning hjá Chrysler.