Dacia Logan í metum hjá Þjóðverjum

Bifreiðaeigendafélögin í Evrópu gera mörg hver árlegar kannanir á ánægju fólks með bíla sína. Í þeim er spurt um flest sem viðkemur bílnum eins og, hvernig var viðmót sölufólksins, hvernig var þjónustan og hvernig hefur hún verið síðan. Þá er spurt um bílinn sjálfan, hvernig er að aka honum og halda honum við.

Flestar þessara kannana eru gerðar undir merkjum Auto-Index, en stærsta félagið ADAC í Þýskalandi gerir sína eigin könnun af þessu tagi og kallast hún Kundenbarometer sem útleggja mætti ánægjuloftvog. Yfir heildina eru það oftast þýskir bílar sem Þjóðverjum finnst mest til koma og BMW, Audi, Mercedes og VW bílar skipa efstu sætin ár eftir ár.

http://www.fib.is/myndir/Kundenbarometer.jpg

En þegar einstakir verðflokkar eru skoðaðir nánar kann annað að koma upp og það gerist einmitt í nýjustu könnuninni þegar ódýrustu bílarnir eru teknir sérstaklega út fyrir sviga ef svo má segja.  Af 11 bílum sem kosta tíu þúsund evrur eða minna, skráðir og komnir á götuna þá ná einungis tveir þýskframleiddir bílar inn á þann lista, en það eru Ford Fiesta sem er í öðru sæti og Ford Ka sem er í áttunda sæti. Efstur er hinn rúmenski Dacia Logan MCV og í þriðja sæti er Dacia Sandero.

Svörin í könnuninni eru umreiknuð til stiga og 100 stig þýða mestu hugsanlega ánægju en 0 stig nákvæmlega enga.  Suzuki Alto er neðstur í þessari könnun með 59,5 stig meða efsti bíllinn, Dacia Logan fær 74,2 stig.