Dælulykill FÍB og Atlantsolíu

http://www.fib.is/myndir/Undirrita1.jpg
Fyrr í dag, föstudag, undirrituðu þeir Árni Sigfússon formaður FÍB og Geir Sæmundsson framkvæmdastjóri Atlantsolíu samning um afslátt af eldsneyti. Undirritunin fór fram á bensínstöð Atlantsolíu í Reykjanesbæ. Samningurinn veitir félagsmönnum FÍB rétt til að fá sjálfvirkan dælulykil að eldsneytisdælum á bensínstöðvum Atlantsolíu og tveggja krónu afslátt af verði hvers lítra af eldsneyti. Eftir að samningar höfðu verið undirritaðir afhenti Geir Árna FÍB dælulykil númer eitt.

Samningurinn markar töluverð tímamót fyrir FÍB því með honum geta félagsmenn sparað árlega um 80 milljónir í eldsneytiskaupum. Í samningnum er því fólgin enn ein viðbótin við kosti þess að vera félagi í FÍB og með honum skuldbindur Atlantsolía sig til að veita engum öðrum en FÍB félögum jafn mikinn afslátt við kaup á eldsneyti í smásölu á eldsneytisstöðvum félagsins.  

Erlend systurfélög FÍB áhugasöm
Tvö af stærstu systurfélögum FÍB í Bandaríkjunum og Evrópu með rúmlega 60 milljónir félagsmanna hafa sýnt samstarfi FÍB og Atlantsolíu mikinn áhuga. Ástæðan er  sú að dælulykill sá sem félagsmenn FÍB fá afhendan og veitir aðgang að eldsneytisdælum Atlantsolíu er byltingarkennd nýjung sökum áreiðanleika og einfaldleika í notkun.
http://www.fib.is/myndir/ArniheilsarGeir.jpg
Árni Sigfússon formaður FÍB og Geir Sæmundsson framkvæmdastjóri Atlantsolíu handsala samning félaganna.