Dagljós lögboðin í Austurríki

The image “http://www.fib.is/myndir/Adalljos.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Frá og með 15. nóvember nk. verður lögskylt í Austurríki að aka með lága geislann á aðalljósunum þegar dagsbirtu nýtur. Þetta gildir um öll farartæki sem aka á vegum en ekki bara mótorhjól eins og áður var.
Ökumenn fá aðlögunartíma að nýju lögunum til marsloka 2006. Meðan hann stendur verða ökumenn ekki sektaðir fyrir að aka með ljósin slökkt, heldur fá einungis aðvörun ef þeir verða stöðvaðir. En þegar mars er liðinn verða ökumenn sektaðir um 38 evrur fyrir að láta undir höfuð leggjast að aka með ljósin kveikt að degi til.
Þjóðverjar hafa ekki sett lög um dagljósanotkun í sín umferðarlög og ekki er vitað til að slík lagasetning sé í undirbúningi. En síðan í byrjun þessa mánaðar hefur verið í gildi heimild/tilmæli til ökumanna um að aka með lága geislann kveiktan að degi til, til þess að gera ökutæki sín sýnilegri fyrir aðra vegfarendur, eins og það er orðað. Slík tilmæli eða heimild er sömuleiðis í gildi í bæði Frakklandi og Sviss.