Daimler-Chrysler dregur úr umsvifum í Rússlandi

The image “http://www.fib.is/myndir/Mercedessandur.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Verður ekki byggður í Pétursborg.
Fyrir mánuði tilkynnti DaimlerChrysler um breyttar fyrirætlanir um að reisa stóra bílaverksmiðju í Pétursborg í Rússlandi. Algerlega er hætt við að reisa verksmiðjuna samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.
Samkvæmt upphaflegum áætlunum átti að reisa bílaverksmiðju þar sem settir yrðu saman 35 þúsund Mercedes Benz bílar á ári til að byrja með og auka átti afkastagetuna verulega strax ef vel gengi. Þær skýringar sem gefnar eru á kúvendingunni eru þær að ný stjórn undir forsæti Dieter Zetsche sé tilneydd að spara peninga. En Auto Motor & Sport hefur eftir heimildamönnum sínum að meginástæðan séu samskiptaerfiðleikar við rússnesk stjórnvöld og stjórnendur Mercedes Benz nenni ekki lengur að berja hausnum við steininn.
Samskiptaörðugleikarnir eru sagðir felast í því að stjórnvöld annaðhvort ráða ekki við eða hafa ekki áhuga á að taka á spillingu og mútuþægni og mútugreiðslum til spilltra stjórnmálamanna og glæpamanna. Ikea hefur fengið að súpa seyðið af þesskonar spillingu og hefur af hennar sökum neyðst til að fresta ítrekað byggingu verslunar- og lagerhúsa vegna þess að stjórnmálamenn sem ekki hafa fengið ríkulegar greiðslur undir borðið, hafa tafið lóðaúthlutanir og byggingaframkvæmdir og jafnvel sigað glæpamönnum á stjórnendur Ikea í Rússlandi með ógnunum og morðhótunum. Þetta vinnulag stjórmála- og glæpamanna hefur gert erlendum fyrirtækjum erfitt fyrir með festa sig í sessi í Rússlandi og stórlega dregið úr áhuga erlendra fjárfesta í landinu.