Daimler innkallar 3,500 Mercedes Citan bíla

Reuters fréttastofan greinir frá því að þýski bílaframleiðandinn Daimler innkalli nú 3,500 Mercedes-Benz Citan sendibíla í Evrópu. Ástæða innköllunarinnar eru sagðir gallaðir loftpúðar. Ekki er langt síðan Citan sendibíllinn var árekstursprófaður hjá Euro NCAP þar sem hann hlaut þrjár stjörnur af fimm.

Citan sendibíllinn er í grunninn Renault Kangoo en hjá Benz hafa nokkrar breytingar verið gerðar á undirvagni og hjólabúnaði bílsins til viðbótar við það að setja Benz stjörnuna á framendann og á stýrishjólið.

Árekstursprófið og niðurstaða þess hefur valdið miklum vonbrigðum hjá Benz. Citan sendibíllinn, sem einnig er framleiddur sem fólksbíll, keppir á markaði við sambærilega bíla eins og Ford Transit og VW Caddy sem báðir hafa náð mun betri árangri hjá Euro NCAP en Citan bíllinn.

Dieter Zetsche forstjóri Mercedes segir í samtali við þýskt dagblað að árangur Citan sé óviðunandi og að sjálfsögðu verði farið rækilega ofan í málið.