DaimlerChrysler setur punkt við Mitsubishi-samstarfið

The image “http://www.fib.is/myndir/MMC-L200.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Glæný gerð Mitsubishi L200.
DaimlerChrysler seldi sl. föstudag síðasta eignarhlut sinn í Mitsubishi sem var upp á 12,4%. Þar með er Mitsubishi-Mercedes-ævintýrinu lokið. Kaupverð hlutarins hefur ekki verið gefið upp.
Fyrir um áratug þegar DaimlerChrysler átti mikilli velgengni að fagna vildu menn fjárfesta og auka umsvifin og fengu augastað á Mitsubishi sem vænlegum fjárfestingar- og samvinnukosti. En vandamálin hjá Mitsubishi reyndust meiri en vænst var í fyrstu auk þess sem ýmis konar vandamál, ekki síst tengd gæðum framleiðslunnar komu upp hjá bæði Chrysler og Mercedes þannig að fjárfestingarnar uppfylltu ekki væntingar.
DaimlerChrysler átti þegar best lét 37 prósent eignarhlut í Mitsubishi Motors. Árið 2004 var afar erfitt ár hjá Mitsubishi og þá ákváðu stjórnendur DaimlerChrysler að kosta ekki meir til Mitsubishi og losa sig út úr dæminu. Kaupandi að þessum síðasta eignarhlut DaimlerChrysler er fjárfestingarfélagið Goldman Sachs Group og á það eftir kaupin 13,4% í Mitsubishi og er þar með stærsti hluthafi fyrirtæksins.
Mitsubishi er fjórða stærsta bílaframleiðslufyrirtækið í Japan. Af fjármálafréttum helstu fréttastofa má ráða að framtíð Mitsubishi sé í óvissu vegna mikils stjórnunarlegs fortíðarvanda. Vegna hans hefur endurnýjun framleiðslunnar verið hæg um árabil þótt að á allra síðustu tímum hafi komið fram nýjar gerðir bílar sem falla kaupendum í geð. Í bílasportinu hefur Mitsubishi hins vegar vegnað mjög vel um langt árabil. Rallbílar þeirra hafa verið afar sigursælir, sérstaklega þó í Dakar-torfærurallinu sem er ein erfiðasta bílaíþróttakeppni á byggðu bóli. Þar hafa Mitsubishi bílar nánast einokað efstu sætin ár eftir ár.