Dakar rallið 2007

 http://www.fib.is/myndir/Dakar2007.jpg

Dakar rallið, lang stærsta og jafnframt ein erfiðasta aksturskeppni sem fram fer í veröldinni, hefst í fyrramálið þegar keppendur aka fyrsta áfangann frá Lissabon í Portúgal til Portimao syðst í Portúgal.

Keppni í Dakar rallinu hefst óvenju seint að þessu sinni, en undanfarin ár hafa keppendur lagt upp í fyrsta áfanga keppninnar á nýjársdegi. Í dag fer fram lokaskoðun á ökutækjum þátttakenda og lýkur henni kl. fimm síðdegis að íslenskum tíma. Búast við að eftir hana fækki talsvert í hópi skráðra keppenda sem eru samtals 537 -  263 mótorhjól, 189 bílar og 85 trukkar - því ef að líkum lætur munu ekki allir skráðir keppendur og farartæki þeirra uppfylla reglur keppnisstjórnar og verða felldir úr keppni.

Keppnisleiðin í Evrópu liggur frá Lissabon til Malaga á Spáni þar sem úthald keppninnar verður ferjað yfir til Nador í Marokkó. Meginhluti keppninnar fer því fram í Sahara eyðimörkinni eins og áður. Keppninni lýkur í Dakar, höfuðborg Senegal þann 21. Janúar.

Að vanda mætir Mitsubishi með sigurstranglegt lið til keppni. Þeirra fremstu ökumenn eru Stephane Peterhansel, Luc Alphand, Nani Roma og Hiroshi Masuoka. En Volkswagen ætlar sér líka stóran hlut að þessu sinni sem sést m.a. af því að í lið VW er nú kominn finnski rallkappinn og Evrópuþingmaðurinn Ari Vatanen. Þar voru m.a. fyrir Giniel De Villiers og Carlos Sainz. Jytta Kleinschmidt sem um árabil keppti í liði Volkswagen er nú gengin til liðs við BMW og aðstoðarökumaður hennar er hin sænska Tina Thörner.