Dakar rallið hefst á laugardag

http://www.fib.is/myndir/Kostas.jpg

Dakar rallið hefst í Lissabon í Portúgal næstkomandi laugardag, þann 5. janúar.  Dakar rallið er talið vera ein erfiðasta aksturskeppni sem háð er. Keppnin er sérstök að því leyti að þar ægir öllu saman; mótorhjólum, fjórhjólum, bílum og stórum trukkum og fjöldi keppenda er mikill. Keppnin fer að stórum hluta fram í eyðimörkum Afríku í miklum torfærum og vegleysum og meðal keppenda verða ætíð mikil afföll – fólk neyðist til að hætta keppni af ýmsum ástæðum, svo sem vegna ofþreytu, bilana eða slysa.

Nú hafa 586 farartæki verið skráð til keppni. Þar af eru 272 mótorhjól, 213 bílar og 101 trukkur.  Áður en sjálf keppnin hefst eru farartækin og keppendurnir skoðaðir og samkvæmt reynslunni má búast við að einhverjir verði felldir út við skoðunina og fái ekki að hefja keppni.

Áætluð keppnisleið er samtals 9.273 kílómetrar. Hún hefst sem fyrr segir í Lissabon í Portúgal þar sem tveir fyrstu áfangar keppninnar fara fram. Eftir það eru keppendur og farartæki ferjuð yfir Miðjarðarhafið til Nador í Marokkó. Þaðan er ekið um Marokkó, Máritaníu og Senegal og endað í Dakar þann 20. janúar nk. Pólitísk ókyrrð, átök og morðtilræði eru að eiga sér stað í Máritaníu og talin er hætta á að keppendur og fylgdarlið kunni að verða þar skotmörk herskárra múslima sem hallir eru undir al-Qaida og Osama Bin Laden. Keppnisstjórnin hefur þó tilkynnt að keppnisleiðinni verði ekki breytt. Stjórnvöld í Máritaníu muni tryggja öryggi keppenda og annarra sem að keppninni koma.

Enginn Íslendingur er meðal keppenda í Dakar Rallinu en þrír Svíar keppa á mótorhjólum og hin sænska Tina Thörner er aðstoðarökumaður hjá BMW. Þá eru þrír Norðmenn meðal keppenda.