Dakar-veldi Mitsubishi hrunið?

http://www.fib.is/myndir/Sainz-Touareg.jpg
Carlos Sainz á fullri ferð.

Þeir ótvíræðu yfirburðir sem Mitsubishi hefur haft í Dakarrallinu um árabil og skilað þeim sjö sigrum í röð, virðast fyrir bí. Aðeins einn bíll úr Mitsubishi liðinu er eftir í keppninni en ökumaður hans er Spánverjinn Joan (Nani) Roma sem stendur sig þó afar vel og er í fjórða sæti. Nú er það Volkswagen sem skipar þrjú efstu sætin þegar keppnin er rúmlega hálfnuð.

Carlos Sainz er eftir gærdaginn efstur, í öðru sæti er VW ökumaðurinn Giniel de Villiers og Mark Miller, einnig á VW, er í því þriðja.  Í gær, sunnudag kom árangur Bandaríkjamannsins Robby Gordon á Hummer hvað mest á óvart en hann náði þriðja sæti í áfanga dagsins og þeim áttunda í keppninni.

Frá því að VW hóf að taka þátt í Dakar rallinu hefur markvisst verið unnið að því að bæta keppnisbílana, sem eru sérsmíðaðir dísilknúnir Touareg bílar. Mitsubishi hafði um árabil teflt fram sínum sérsmíðuðu Pajero Evolution bílum með V6 bensínvélum. Í ár voru helstu keppnisbílar Mitsubishi hins vegar nýir bílar – sérbyggðir Lancer með fjögurra strokka dísilvélum. Svo virðist sem Mitsubishi hafi ekki náð að þrautprófa nýju bílana nægilega vel því að þeir hafa verið að detta út einn af öðrum og nú er aðeins einn eftir sem fyrr er sagt. Peterhansel, sá mikli Mitsubishi-kappi féll úr keppninni í sjöunda áfanga og Hiroshi Masuoka strax í öðrum áfanga.

Áfangar dagsins í dag og á morgun eru taldir þeir erfiðustu í keppninni. Í dag aka keppendur um Atacama eyðimörkina sem er ein þurrasta eyðimörk veraldar. Sérleiðin er 440 kílómetrar um sandöldur. Staða 10 efstu bílstjóranna eftir gærdaginn er þessi:

1. Carlos Sainz Volkswagen 27.29:59
2. Giniel de Villiers Volkswagen + 10:57
3. Mark Miller Volkswagen + 18:05
4. Joan Roma Mitsubishi + 33:31
5. Robby Gordon Hummer +1.32:01
6. Krzysztof Holowczyc Nissan +2.57:05
7. Ivar Erik Tollefsen Nissan +3.25:32
8. Dieter Depping Volkswagen +4.51:45
9. Rene Kuipers BMW +5.33:43
10. Tonnie van Deijne Mitsubishi +5.57:49