Dakarrallið hefst a sunnudag

Dakar rallið, erfiðasta aksturskeppni veraldar, hefst nk. sunnudag í Lima í Perú en endar í Santiago í Chile 19. janúar.

Upphaflega var keppnisleiðin milli Parísarborgar og Dakar í Senegal. Síðan breyttist hún þannig að upphafsstaður keppninnar var í ýmsum borgum Evrópu og endastöðin í ýmsum stórborgum Afríkuálfu. En róttækasta breytingin var þó sú að flytja keppnina til S. Ameríku en þar hefur hún verið háð síðan. Keppnin í ár er sú fimmta sem fram fer í S. Ameríku.

Keppnin verður að þessu sinni aðallega í vestanverðri S. Ameríku. Hún hefst sem fyrr segir í Lima í Perú og verður þaðan ekið suður með vesturströndinni í Perú og Chile. Þegar keppnisleiðin verður um það bil hálfnuð verður beygt til austurs, yfir Andesfjöllin til Argentínu, og síðan í nokkurnveginn í hásuður uns komið verður til Córdoba. Þaðan liggur leiðin til norðvesturs og yfir Andesfjöllin á ný inn í Chile þar sem keppninni lýkur svo í Santiago.

Það sem gerir Dakarrallið svo sérstakt er að þar ægir öllu saman – bílum, mótorhjólum, þrí- og fjórhjólum og trukkum. Ekið er um eyðimerkur og fjöll, á vegum og vegleysum og reynir gríðarlega á þátttakendur, bæði á þrek þeirra og kunnáttu og hæfni.