Danir á sænskskráðum bílum

The image “http://www.fib.is/myndir/BMW530i.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
BMW 530i. kostar kominn á dönsk númer 8,5 milljónir en þrjár á sænskum númerum.
Skattstofan í Kaupmannahöfn hefur sent út reikninga upp á samtals um 200 milljónir íslenskra króna til 57 bíleigenda í borginni fyrir að aka um á bílum sem skráðir eru í Svíþjóð og með sænskar númeraplötur.  Þetta kemur fram í Jyllands Posten. Hinir dönsku bíleigendur hafa komið sér upp gerviheimilisfangi í Svíþjóð og síðan keypt sér nýja bíla og skráð þá í Svíþjóð eins og þeir búi á gerviheimilisfanginu.
Opinber gjöld á nýja bíla í Danmörku eru gríðarlega há og þeir þarafleiðandi mjög dýrir. Svíar leggja hins vegar engin gjöld á nýja bíla önnur en virðisaukaskatt. Sem dæmi um verðmun á bílum í Svíþjóð og Danmörku má nefna að BMW 530i skutbíll kostar í Danmörku um 8,5 milljónir ísl. kr. Í Svíþjóð kostar hann hins vegar rétt rúmar þrjár milljónir skráður á götuna. Það er því skiljanlegt að menn leiti leiða til að verjast þessari ótrúlega hörðu sókn danska ríkisins í vasa bíleigenda.
En danska ríkisvaldið ver þessa tekjulind sína af mikilli hörku og í Kaupmannahöfn er sérstök lögregludeild sem starfar í samvinnu við skattayfirvöld eingöngu við það að eltast við bíla með erlendum skráningarnúmerum og stöðva þá í tíma og ótíma. Ef ökumenn reynast vera búsettir í Danmörku er lagt hald á bílinn í snatri. Meginreglan er einfaldlega sú að sé ökumaður með lögheimili í Danmörku, má hann ekki aka bíl á erlendum númerum innan landamæra Danaveldis nema hafa til þess sérstakt leyfi frá skattinum og/eða lögreglunni.
Eftir að Eyrarsundsbrúin var opnuð hafa samgöngur og öll samskipti milli Danmerkur og suðurhluta Svíþjóðar aukist mjög. Frá því í september 2004 hefur skattstofa Kaupmannahafnar og lögreglan í samvinnu við skattayfirvöld og lögreglu í Málmey í Svíþjóð haft sænskskráða bíla á götum Kaupmannahafnar undir smásjá og fylgst hefur verið náið með ferðum 850 bíla og þar af eru 80 ennþá undir sérstöku eftirliti. Í frétt Jyllands Posten segir að viðurlög við því að koma sér upp sænsku gerviheimilisfangi og kaupa sér síðan dýran bíl og skrá hann á sænsk númer geti varðað allt að tveggja ára fangelsi.