Danir aka enn á gömlum bílum


http://www.fib.is/myndir/Austin-1932.jpg

Danir eru nýtin þjóð og hafa lengi búið við einar hæstu álögur á nýja bíla sem fyrirfinnast. Þeir nýta því bíla sína vel og eiga lengi sem sést af því að um þriðjungur allra bíla á skrá í landinu er eldri en tíu ára, eða 635 þúsund bílar. En gamlir bílar eru bilanagjarnari en nýir og samkvæmt tölfræðisamantekt dansks bílaskoðunarfyrirtækis koma fram við skoðun bilanir í um 2,5% bíla sem eru fimm ára og yngri. Í bílum sem eru 10 ára eða eldri greinast hins vegar bilanir í 17,1 þeirra við skoðun.

Forstjóri skoðunarfyrirtækisins segir við Motormagasinet að há bilanaprósenta í gömlu bílunum sé áhyggjuefni enda sé oft um að ræða bilanir sem rýrt geta öryggi þeirra sem í gömlu bílunum aka, sem og öryggi annarra vegfarenda. Hann segir að bílar sem eru minna en fimm ára gamlir séu yfirleitt í ágætu lagi hvað varðar öryggi. Í fimm til tíu ára gömlum bílum leiði skoðun í ljós bilanir eða ágalla við hemlakerfi í allt að 17,2% tilfella. Og enn versnar það í bílum sem eldri eru en tíu ára. Í þeim finnist bilanir í hemlakerfi í 34,8% tilfella sem sé ógnvekjandi mikið.