Danir streyma til USA í fríum

Búist er við að árið í ár verði metár í heimsóknum Dana til Bandaríkjanna. Talið er að hátt í 300 þúsund Danir heimsæki Bandaríkin í ár. Frá þessu er greint í frétt frá ferðaskrifstofu FDM, sem er systurfélag FÍB í Danmörku. Lang flestar heimsóknirnar eru (sumar)leyfistengdar en einhver hluti eru ferðir sem tengjast vinnu og viðskiptum.

Sem ferðamannaland eru Bandaríkin fjölbreytt bæði hvað varðar náttúru og mannlíf. Það dregur ferðamenn að, en einna mesta aðdráttaraflið er þó fólgið í hagstæðu gengi dollars gagnvart danskri krónu, lágum og lækkandi flugfargjöldum og hagstæðu verði á gistingu og bílaleigubílum.

Ferðaskrifstofa FDM; FDM-Travel hefur um árabil skipulagt fjölbreyttar Bandaríkjaferðir á hagstæðu verði og njóta félagsmenn FÍB sömu kjara hjá ferðaskrifstofunni og félagsmenn FDM, gegn því að framvísa gildu félagsskírteini í FÍB. Framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar, Jan Lockhart segir að Bandaríkin séu orðin með ódýrustu ferðamannasvæðum fyrir Dani og fjölbreytni þess sem í boði er fyrir ferðalanga sé nánast óþrjótandi hvort sem farið er í langferðir á bíl, í húsbíl eða til styttri dvalar í einhverri borginni, t.d. New York.

Hjá FDM-Travel eru margskonar Bandaríkjaferðir í boði, eins og ökuferðir þvert yfir Bandaríkin ýmist í eigin bíl, bílaleigubíl eða húsbíl, ferðir sem skipulagðar eru út frá börnunum með heimsóknum í hverskonar skemmtigarða, rómantískar borgarferðir eða þá verslunarferðir, en mjög hagstætt er að versla í Bandaríkjunum. Hægt er að fá verðtilboð í þessar ferðir á heimasíðu FDM-Travel með flugi til og frá Íslandi. Þá skal þess getið að gilt félagsskírteini í FÍB veitir aðgang að hinu gríðarlega öfluga afsláttaneti systursamtaka FÍB í Bandaríkjunum; AAA.

Með aukinni sókn danskra ferðamanna til Bandaríkjanna hafa ferðalög Dana til S. Evrópu dregist saman. Verðlag á gistingu og viðurgerningi er orðið lægra í Bandaríkjunum um háannatímann en á t.d. Ítalíu, Frakklandi og Spáni sem lengi hafa verið hin klassísku sumarleyfislönd Dana.

Fjöldi danskra ferðamanna til Bandaríkjanna

2009: 245.000
2010: 258.000
2011: 274.000
2012: 290.000