Danmörk var bílaframleiðsluland

Efalítið finnst mörgum það ótrúlegt að Danmörk hafi verið bílaframleiðsluland og það talsvert öflugt. Fjöldaframleiðsla á Fordbílum hófst í Danmörku í október árið 1919 og 1923 tók bílaverksmiðja GM til starfa og starfaði óslitið til ársins 1974 þegar henni var lokað. Þar með lagðist fjöldaframleiðsla á bílum af í Danmörku. Þegar framleiðslan var sem mest voru mun fleiri bílar framleiddir í Danmörku en í bílalandinu Svíþjóð.

http://www.fib.is/myndir/Ford-faeriband.jpg
Við færibandið í Fordverksmiðjunni í Sydhavn-
en í Kaupmannahöfn 1934.
http://www.fib.is/myndir/Chevy-57-reklame.jpg
Auglýsing á danskframleiddum Chevrolet Hard-
top 1957. Efsta myndin er af Opel P2 sem fram-
leiddur var í Danmörku.
http://www.fib.is/myndir/Fordv.rifin.jpg
Gamla Fordverksmiðjan í Kaupmannagöfn sem
rifin var 2006.

En þótt hún legðist af eru enn byggðir bílar í landinu. Það eru einkum dýrir sportbílar sem handbyggðir eru eftir pöntunum. Ennfremur eru ýmsir íhlutir framleiddir þar fyrir bílaframleiðendur eins og undirvagnar fyrir Lotus sportbíla svo dæmi sé nefnt. Þá mun framleiðsla stórra mótorhjóla vera við það að hefjast á ný eftir langt hlé.

Frumkvöðullinn Knudsen

Sá sem stærstan þátt átti í því að gera Danmörku að bílaframleiðslulandi var danskættaður Bandaríkjamaður, William S. Knudsen. Hann vann fyrst fyrir Ford og sannfærði hann um ágæti þess að setja upp samsetningarverksmiðju í Kaupmannahöfn sem þjóna skyldi Danmörku, Íslandi, Færeyjum, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi, Letlandi, Litháen, Póllandi, fríríkinu Danzig og norðurhluta Þýskalands.

Ford bílar komu fyrst á markað í Danmörku árið 1906 og einkaumboðsfyrirtæki Ford bifreiða var F. Bülow í Kaupmannahöfn. Salan fór rólega af stað og fyrsti Fordinn seldist árið 1907 og bættist í hóp þeirra 1.911 bíla sem til voru í Danmörku. Á árunum 1907-1908 seldi F. Bülow einungis 11 bíla en þá var eins og stíflan brysti því árið eftir seldust 32. Salan jókst síðan upp í 222 bíla árið 1916, en þá stöðvaðist innflutningurinn af völdum fyrri heimsstyrjaldarinnar.

Þegar þarna var komið sögu taldi William S. Knudsen rétta tímann til að reisa bílaverksmiðju í Kaupmannahöfn og tókst að sannfæra Henry gamla Ford um að það væri eina vitið. Verksmiðjan tók svo til starfa árið 1919 sem fyrr segir, eða árið eftir að heimsstyrjöldinni lauk. Fullu nafni hét verksmiðjan Ford Motor Company Dansk Monteringsfabrik A/S. Stofndagurinn var 25. júní 1919 og framleiðslan hófst í október sama ár. Ein bílgerð var framleidd. Hún var Ford T Touring og afköstin voru 14 bílar á dag. Hlutirnir í Ford bílana komu fyrstu áratugina í gríðarstórum trékössum frá Bandaríkjunum sem endurnýttir voru í byggingar sumarhúsa og annarra húsa.

Knudsen fer til GM

En svo slitnaði upp úr samvinnu þeirra Henry Ford og Williams S. Knudsen og sá síðarnefndi flutti sig yfir til höfuðkeppinautarins General Motors og á vegum GM stóð hann svo fyrir því að ræsa stóra GM bílaverksmiðju. Hún var til húsa í byggingum sem áður hýstu verksmiðju sem framleiddi rafmagnskapla hverskonar. Verksmiðjan var sú fyrsta sem GM reisti utan  Bandaríkjanna og Kanada en hún tók til starfa 25. október árið 1923. Hún hét fullu nafni General Motors International A/S.

Í verksmiðjunni voru byggðir bílar fyrir sömu markaðssvæði og Ford verksmiðjan þjónaði og talin eru upp hér að ofan.  Að lokinni síðari heimsstyrjöldinni stjórjókst eftirspurn eftir bílum og til að mæta henni dugði gamla háspennukaplaverksmiðjan hvergi nærri. Því var ný verksmiðja byggð og tekin í notkun árið 1947 og um leið jukust afköstin um helming. Árið 1957 var því svo fagnað að búið var að byggja 200 þúsund GM bíla í Danmörku. Framleiðslan hélt áfram að aukast og árið 1965 voru afköstin 18 nýir bílar á klukkustund.

Verksmiðjur bæði Fords og GM þóttu ágætir vinnustaðir og reknar að mestu leyti á bandaríska vísu. Þar gat hver og einn unnið sig upp innan fyrirtækisins ef fólk var hæfileikaríkt og duglegt. Þesskonar þótti óvenjulegt í Danmörku þess tíma. Ágætt dæmi um slíkt var Edmund Kjeldsen sem byrjaði að starfa á lager hjá GM en varð á endanum forstjóri GM í Danmörku.

Milljón danskbyggðir bílar

Bílarnir sem settir voru saman í GM verksmiðjunni voru af mörgu tagi, fólksbílar, sendibílar og vörubílar, aðallega Opel og Chevrolet. Einstakir hlutar í bílana eins og yfirbyggingarhlutir, vélar og vélarhlutir, gírkassar, drif, fjöðrunar- og stýrisbúnaður, felgur og dekk, boltar og rær, málning og annað sem til þurfti kom allt til verksmiðjunnar í stórum gámum og að meðaltali varð innihald 80 gáma að 96 bílum. Hráefnið í bílana kom víða að. Sem dæmi má nefna að efni í Opel P 2 pallbíla sem mikið var framleitt af um tíma, kom frá Suður-Afríku.

Fyrrnefndur Edmund Kjeldsen, sem nú er látinn, sagði í viðtali við danskt tímarit að bílaframleiðslan hefði gengið vel lengst af allt fram til ársins 1969 að ljóst var orðið að fraleiða þyrfti fleiri bíla til að reksturinn væri í jafnvægi.  Þá ákvað stjórn GM að stækka verksmiðjuna í Kaupmannahöfn svo mjög að hún gæti annað allri eftirspurn norður-evrópska bílamarkaðarins eftir Opel og öðrum GM bílum. En þá skall á olíukreppan mikla 1973 og eftirspurn eftir bílum hrundi. Kjeldsen segir að vilji hafi verið til að reyna að halda sjó og komast í gegn um kreppuna, m.a. með því að fá dönsku ríkisstjórnina til að lækka hin ofurháu dönsku skráningargjöld á heimaframleidda bíla en því hafi algerlega verið hafnað. Þá hafi ekki annað verið eftir í stöðunni en að loka verksmiðjunni. Það var svo gert árið 1974.

Frá því að fjöldaframleiðsla á bílum hófst í Danmörku á þriðja áratuginum og þar til henni lauk  árið 1974 voru hátt í milljón bílar byggðir. Ford bílarnir urðu 326.500 og GM bílarnir  584.100 talsins. En fleiri hafa byggt bíla í Danmörku en Fort og GM. Þannig rak fyrirtækið Bohnstedt-Pedersen samsetningarverksmiðju og byggði þar bíla af tegundunum DKW, Wanderer, Mercedes Benz og Chrysler. Fyrirtækið DOMI byggði Morris bíla og Nordisk Diesel byggði Standard 8 og 10 og Standard Vanguard.