Danskir ökumenn fyrirtækjabíla sagðir hættulegustu ökumennirnir

The image “http://www.fib.is/myndir/Firmabil.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Ökumenn fyrirtækjabíla í Danmörku eru verstu ökumennirnir og hættulegastir í umferðinni að mati danska umferðarráðsins. Þeir lenda í þrisvar sinnum fleiri umferðarslysum og -óhöppum en hinn dæmigerði danski ökumaður sem ekur eigin bíl.  Umferðarráðið byggir þetta á tölulegum upplýsingum frá ALD Automotive sem leigir út í langtímaleigu samtals um 13 þúsund bíla til fyrirtækja. Tölurnar ná til allt frá smávægilegum tjónum eins og rispa og smábeygla til alvarlegra umferðarslysa. Framkvæmdastjóri danska umferðarráðsins, Rene la Cour Sell segir við Politiken að það sé ógnun við umferðaröryggi þegar stór hópur fólks temur sér slæmt ökulag eins og akstur umfram hraðamörk, hvatvísan eða árásargjarnan akstur og taki áhættu. Hann segir að þetta sé spurning um viðhorf fólks sem aki mikið og telji sig þessvegna þrautþjálfaða og góða ökumenn sem ráði vel við það sem þeir eru að gera.
Talsmaður ALD Automotive, Lars Kjeldsen telur að miklar skemmdir á fyrirtækjabílunum verði ekki síst vegna þess að  ökumönnum þeirra sé alveg sama um bílana úr því þeir þurfi ekki sjálfir að borga skemmdir sem á þeim verða. Ef menn skemma eigin bíl þá bitni það á sjálfsáhættu þeirra og tryggingabónusi. Það haldi aftur af mörgum.
Janus Rasmussen deildarstjóri hjá tryggingafélaginu TRYG segist ekki hafa tekið eftir því að fyrirtækjabílar séu áberandi meir í tjónum en aðrir bílar miðað við akstur. Fyrirtækjabílar séu mun meir á ferðinni en einkabílar. –Ef við berum saman tvo eins bíla, annan einkabíl en hinn fyrirtækjabíl og ökumenn beggja með sömu akstursreynslu, þá getum við ekki fundið marktækan mun,- segir Janus Rasmussen við Politiken.