Danskt hljóðkerfi í Audi

http://www.fib.is/myndir/B&O_1.jpg

Bang & Olufsen hljómtækjaframleiðandinn góðkunni í Struer í Danmörku hefur gert samning við Audi um að framleiða gæðahljóðkerfi í Audi A4. B&O hljóðkerfin verða fáanleg í bílunum frá og með desember á þessu ári. B&O græjurnar verða einnig í þeim Audi A4 bílum sem sýndir verða á bílasýningunni í Frankfurt sem hefst í næstu viku. Danska bílablaðið Motormagasinet telur að mjög hafi hlaupið á snærið hjá hinum danska hljómtækjaframleiðanda með þessum samningi og bendir á að A4 sé sú gerð Audi bíla sem mest selst af.
http://www.fib.is/myndir/B&O_2.jpg
Á fyrra helmingi ársins seldi Audi 162.121 A4 bíla í heiminum. Að undanförnu hefur B&O smíðað hljómkerfi í dýrari bíla Audi af gerðunum A8, S8, R8 og – frá nóvember nk. - Q7. Af þessum gerðum framleiddi Audi samtals 13.000 eintök á fyrra helmingi ársins.

Danska dagblaðið Børsen segir að hljómtækin í Audi A4 verði af ódýrustu gerð B&O bíltækja, þótt þau geti vart talist ódýr í sjálfu sér, því að þau kosta í lausasölu um 50 þúsund ísl. kr. Lúxusbíltæki B&O eru hins vegar verulega dýrari en það. Þau kosta upp undir 200 þúsund ísl. kr. stykkið.