Danskur bíldraumur

http://www.fib.is/myndir/Sondergard.jpg
Frumgerð Søndergaard sportbílsins var afhjúpuð á bílasýningu í Kaupmannahöfn í gærkvöldi.

Danskur fullhugi, Ricky Søndergard að nafni hyggst fljótlega hefja framleiðslu á léttum sportbíl. Áætluð ársframleiðsla er 500 til 700 bílar. Frumgerð bílsins er sýnd á bílasýningu sem haldin er í sýningarhöllinni Bella Center á Amager, skammt frá Kastrup flugvelli.

Bíllinn er tveggja sæta sportbíll með hjólabúnaði, vél, gírkassa og drifi frá GM. Þetta er sami búnaður og er í afturhjóladrifnu sportbílunum Pontiac Solstice / Opel GT. Hönnuðurinn er Daninn Jesper Hermann sem starfað hefur sem hönnuður hjá BMW.

Framleiðsla og samsetning á Søndergard bílnum, en svo nefnist verkefnið, mun fara fram á Fjóni í heimasveit frumkvöðulsins Ricky Søndergard. Hönnuðurinn Jesper Hermann segir í samtali við fréttavef FDM, systurfélags FÍB í Danmörku, að markmið þeirra félaga sé að búa til bíl sem er ekki eins tengdur fortíðinni og flestir aðrir „Kit“ bílar sem byggðir eru í heiminum í dag. Augljóst verði þó að bíllinn sé „Kit“ bíll, eða heimasmíði úr forbyggðum einingum, -en við teljum okkur hafa lyft hugtakinu á hærra plan en áður,- segir hönnuðurinn við fréttavef FDM.

Søndergard bíllinn verður ekki sérlega ríkulega búinn nútíma öryggisbúnaði. ABS læsivarðir hemlar verða fáanlegir en loftpúðar ekki. Vélin verður tveggja lítra 265 hestafla túrbínubensínvél og þar sem eigin þyngd farartækisins er einungis 680 kíló verður hann eldsnöggur í viðbragði.