Danskur ofursportbíll

 Fjöldamargar litlar bílasmiðjur fyrirfinnast í Evrópu sem byggja sportbíla eftir pöntunum. Margir þekkja t.d. Spyker í Hollandi og Koenigsegg á Skáni, Svíþjóðarmegin við Eyrarsundið. Við höfum áður sagt frá dönskum bílasmiðum og hönnuðum eins og Henrik Fisker sem fyrir fáum árum hannaði Aston Martin og BMW bíla en er nú að hefja framleiðslu á rafbílum í Finnlandi og Bandaríkjunum. 

Dags daglega hugsa sjálfsagt fáir út í það að Danmörk er gamalgróið land tækni og iðnframleiðslu. Þar var um miðja síðustu öld  öflug framleiðsla á Ford og GM bílum, Nimbus mótorhjólum og jafnvel flugvélum um tíma (KZ). Í dag er talsverður fjöldi fyrirtækja í landinu sem framleiða íhluti í bíla og sérhæfð fyrirtæki sem breyta bílum – fyrirtæki eins og Kleemann sem breytir Mercedes bílum í ofurtryllitæki.

http://www.fib.is/myndir/Zenvo_ST1_inni.jpg
Mælaborðið í Zenvo ST1.

En nú berast fregnir af nýrri bílasmiðju sem nefnist Zenvo Automotive sem byggir sportbíla. Zenvo hefur sent frá sér myndir af ofursportbílnum ST1 sem byggður verður úr koltrefjaefnum, hefur 1.100 hestafla vél og mun kosta án allra gjalda til ríkisins 850 þúsund evrur. Byggðir verða einungis 15 bílar þannig að þessi ofurvagn gæti hugsanlega haldið verðgildi sínu sem safngripur þegar fram í sækir. „Framleiðslan“ er sögð vera um það bil að hefjast.

 Ekki er líklegt svona eftir efnahagshrunið hér á landi að íslenskir kaupendur séu margir og búnir að stilla sér í biðröð eftir Zenvo ST1 því að ef einhver vildi skrá slíkan bíl á Íslandi þá þyrfti að greiða opinber gjöld af bílnum þannig að verðið myndi hátt í tvöfaldast og hver á hátt í 1,6 milljón evrur í handraðanum til að greiða fyrir tveggja manna sportbíl?

Ekki er heldur líklegt að kaupendurnir bíði í röðum í heimalandinu Danmörku því að þar eru skráningargjöldin með þeim hæstu á byggðu bóli og bíllinn myndi rúmlega þrefaldast í verði.

 Zenvo ST1 er ekki stór bíll. Lengd hans er 4,66 m, breiddin er 2,04 og hæðin einungis 1,19 m. Þyngd bílsins tilbúnum til aksturs er 1.375 kíló og vélaraflið sem fyrr segir 1.100 hö. Sérstök hraðakstursdekk frá Michelin eru undir honum; að framan er felgustærðin 19 tommu og breidd þeirra er 9,5 tommur. Felgurnar að aftan eru 20 tommu og 12,5 tommur á breidd.

Vélin er V8 sjö lítra frá Chevrolet Corvette og er bæði með forþjöppu (Kompressor) og púst-túrbínu. Við hana er sex gíra gírkassi og drifið er á afturhjólum. Bíllinn er þrjár sekúndur í hundraðið og hámarkshraðinn er afstemmdur við 375 km á klst.

 Þegar lokið verður við að byggja alla 15 ST1 bílana í seríunni mun ætlun forráðamanna Zenvo að halda áfram og byggja einskonar ódýra útgáfu með aflminni vél og leggja minna í búnað og innréttingar. Þá munu vera í bígerð tvær aðrar gerðir bíla en ekkert fæst uppgefið um hvernig þeir verða eða hverskonar.